COVID ráðgjafar nýja starfstéttin í Hollywood

epa05179492 An OSCAR statue stands ready for paint touch up during preparations for the 88th annual Academy Awards ceremony at the Dolby Theatre in Hollywood, California, USA, 24 February 2016. The annual awards ceremony will be held on 28 February 2016.
 Mynd: EPA

COVID ráðgjafar nýja starfstéttin í Hollywood

28.05.2020 - 11:28

Höfundar

Mikill fjöldi starfsfólks kemur jafnan að gerð hverrar kvikmyndar og sjónvarpsþáttar, auk leikara og leikstjóra. Kvikmyndatökumenn, ljósameistarar, förðunarfræðingar og hárgreiðslufólk eru bara nokkrir þeirra sem eiga þar líka hlut að máli. Nú hefur ný starfsgrein bæst í hópinn. Þetta eru COVID-19 ráðgjafarnir sem eiga að sjá um að halda tökustaðnum veirufríum.

Reuters segir algjört frost hafa verið í bandarískum kvikmyndaiðnaði eftir að kórónaveirufaraldurinn reið yfir og leita forsvarsmenn kvikmyndaveranna nú leiða til að hefja framleiðslu á ný. Það er þó ekki hlaupið að því þar sem margir koma yfirleitt að gerð hverrar myndar, þrengsli á tökustað eru oft mikil og leikarar eru þar í mikilli nánd. Þurfa jafnvel að kyssast, faðmast og slást.

Það er því eftirspurn í Hollywood þessa dagana eftir faraldsfræðingum og öðrum lýðheilsusérfræðingum sem geta ráðlagt um hvernig forðast megi smit við slíkar aðstæður. 

Efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar á kvikmyndaiðnaðinn eru þegar orðin mikil og ekki síður á borgir á borð við Los Angeles sem byggja efnahag sinn að töluverðu leiti á iðnaðinum. Það skiptir fyrirtæki á borð við Netflix og Walt Disney því miklu að geta hafið framleiðslu sem fyrst.

Þeir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum búast við að farið verði af stað með smærri hópa, regluleg smitpróf og svo spritt út um allt. Þá verði tölvutæknin líklega notuð í enn meira mæli en áður til að skapa mannfjölda þar sem við á.

Leikstjórinn Tyler Perry ætlar að hefja tökur á tveimur sjónvarpsþáttum í kvikmyndaveri í Atlanta í júlíbyrjun. Á svæðinu eru hýbýli sem bjóða upp á sóttkví reynist hennar þörf og til að tryggja aðstæður sem best naut hann aðstoðar lækna, faraldsfræðinga, lögfræðinga, verkalýðsfulltrúa, tökuliðs og tryggingasérfræðinga.

Einn þeirra sem þar kom að málum var Carlos del Rio sérfræðingur í smitsjúkdómum við Emory háskóla sem ráðlagði að skimað yrði hjá öllu starfsfólki áður en tökur hæfust og að minnsta kosti einu sinni á því tveggja vikna tímabili sem það dvelur á svæðinu.

Hann kom einnig með ráðleggingar varðandi hreinlæti og smitvarnir en segist ekki geta lofað að þær virki 100%. Mögulega muni þær duga ekki til að halda kórónaveirunni fjarri tökustað. „Ég tel hins vegar ekki æskilegt að við segjumst ætla að bíða þar til veiran er horfin eða búið er að finna upp bóluefni, því þá kann svo að fara að við gerum ekkert næstu tvö árin," segir del Rio.

Verkalýðsfélög leikara og annarra starfsmanna kvikmyndaiðnaðarins hafa einnig fengið sérfræðinga frá Harward og Kaliforníuháskóla til að þróa fyrir sig leiðbeiningar. Þá beinast augu allra einnig að Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu, sem hefur tilkynnt að hann hyggist birta leiðbeiningar fyrir kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinn síðar í vikunni.