Áætla að hlutastarfaleið kosti rúma 30 milljarða

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Ríkisendurskoðandi gagnrýnir að Vinnumálstofnun hafi ekki eftirlit með þeim fyrirtækjum sem settu starfsfólk á hlutabætur og segir að skýra þurfi í lögum, um framlengingu hlutabótaleiðarinnar, hvaða fyrirtæki hafi heimild til að óska eftir þessu úrræði. Ríkisendurskoðandi hóf athugun á málinu að eigin frumkvæði og gaf út skýrslu um málið í dag.

Í skýrslunni kemur fram að hlutabótaleiðin hafi reynst mun dýrari en lagt hafi verið upp með. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir ríkissjóð verði rúmir 30 milljarðar á árinu en upphaflega var talið að hann yrði 750 milljónir. Einnig segir að í hópi þeirra fyrirtækja sem nýtt hafi hlutabótaleiðina séu fyrirtæki og samstæður sem búi að öflugum rekstri og stöndugum efnahag en ekki hafi verið ætlunin með lögunum að styðja slík fyrirtæki. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að tryggja virkt eftirlit með úrræðinu þegar í stað.

Hlutabótaleiðin var lögfest 20. mars. Þá taldi forstjóri Vinnumálastofnunar, Unnur Sverrisdóttir, að kostaðurinn gæti orðið þrír milljarðar króna ef 5.000 manns nýttu sér leiðina en að hann gæti orðið 6,4 milljarðar ef fjöldinn yrði 10.000.

Þá hafi verið mikil óvissa um starfshlutfall þeirra sem nýta myndu leiðina, eftir því sem það yrði lægra myndi kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs aukast. Þegar ríkisstjórnin kynnti úrræðið á blaðamannafundi þann 21. mars var gert ráð fyrir mun meiri kostnaði. Samkvæmt kynningunni var talið að viðbótarþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs yrði 22 milljarðar króna. Í skýrslu ríkisendurskoðanda segir að ekki hafi verið sett fram nein spá um fjölda einstaklinga sem kynnu að nýta leiðina en að miðað við áætlaða fjárþörf hafi mátt gera ráð fyrir að fjöldinn yrði um 30.000.

Rúmlega 37.000 manns hafa fengið atvinnuleysisbætur í gegnum hlutabótaleiðina. Það eru starfsmenn hjá 6.436 vinnuveitendum. Allt stefnir í að heildarkostnaður ríkissjóðs á árinu verði 31 milljarður króna. Í skýrslunni segir að aukið atvinnuleysi og hlutastarfaleiðin geri það að verkum að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs geti orðið allt að 84 milljarðar króna á árinu. Það er 56 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í upphafi ársins.

Segir lögin ekki margorð um skilyrði

Lög um hlutabætur eru ekki margorð um þau skilyrði sem þurfi að uppfylla til að fá hlutabætur, að því er segir í skýrslu Ríkisendurskoðanda. Hvað launamenn varði kveði þau á um að tímabundinn samdrátt í starfsemi vinnuveitanda sé að ræða en að í tilviki sjálfstætt starfandi einstaklinga verði að vera verulegur samdráttur í rekstri sem leiði til tímabundinnar stöðvunar á rekstri. Ríkisendurskoðandi segir í skýrslunni að lögin hafi ekki að geyma frekari skilgreiningar á því hvað felist í tímabundnum samdrætti eða hvað telst vera verulegur samdráttur.

Yfir 6.000 fyrirtæki nýttu úrræðið

Eins og áður sagði voru yfir sex þúsund fyrirtæki sem settu starfsmenn á hlutabætur. Mörg þeirra eru í ferðaþjónustu, svo sem Icelandair, sem setti flesta starfsmenn á hlutabætur, rúmlega tvö þúsund. Þá settu Flugleiðahótel 502 starfsmenn í úrræðið og Íslandshótel 365 starfsmenn. Það voru einnig fyrirtæki í útgáfustarfsemi sem nýttu úrræðið. Myllusetur ehf., sem gefur út Viðskiptablaðið, setti 15 manns í úrræðið og N4 settu átta manns. Þá setti Advania Ísland ehf. 33 starfsmenn í úrrtæðið, að því er fram kemur í skýrslunni. Nokkur fyrirtæki í sjávarútvegi nýttu úrræðið, þar á meðal Útgerðarfélag Akureyringa, sem setti 129 í úrræðið og Samherji. 116 starfsmenn Samherja fóru á hlutabætur.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi