Útsýnispallur við Norðfjarðarvita bara byrjunin

27.05.2020 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Útsýnispallur hefur verið steyptur við Norðfjarðarvita og eru uppi hugmyndir um að byggja þar aðstöðu fyrir heilsutengda ferðaþjónustu. Aðstaðan gæti líka nýst þeim sem skoða leyndar náttúruperlur í nágrenninu, meðal annars Páskahelli, í elsta fólkvangi landsins.

Horfa á frétt

Neskaupstaður er austasti byggðarkjarni landsins og heimamenn vilja fá fleiri ferðamenn til að hægja á sér, þræða Austfirði og kynnast fegurðinni við sjóinn. Norðfjarðarviti yst í þorpinu hefur lengi verið vinsæll útsýnisstaður og hann ætlum við að skoða ásamt Páli Björgvin Guðmundssyni fyrrverandi bæjarstjóra. Hann bjó í Neskaupstað og sá þörfina fyrir uppbyggingu við vitann. „Við sáum að hérna voru túristar að koma ferðamenn og Íslendingar og bæjarbúar sem þurftu á einhvers konar aðstöðu að halda hérna við fólkvanginn því það er mjög vinsælt að fara út í hann og labba út í Páskahelli. Við tókum eftir því að það var þörf fyrir áfangastað hér,“ segir Páll Björgvin.

Fólkvangurinn í Neskaupstað og Páskahellir draga til sín fólk

Fólkvangurinn í Neskaupstað var friðlýstur árið 1972 og var sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Þar er fjölbreytt landslag, fuglalíf og gróðurfar. Brimið hefur víða sorfið skúta milli hraunlaga, meðal annars Páskahelli. Þjóðsagan segir að á páskadagsmorgun megi sjá sólina dansa í hellinum. Þar hafi bóndi náð hami selmeyjar en nú er þar stundað sjósund og annað busl. Aðstaða við Norðfjarðarvita gæti bætt aðgengi að þessu svæði. „Við vorum svo heppin að Samvinnufélag útgerðarmanna hér í Neskaupstað ákvað að styrkja að setja upp þennan útsýnispall. En hann er líka hugsaður sem grunnur framtíðarhúss eða aðstöðu sem við sjáum fyrir okkur að verði hér í framtíðinni,“ segir Páll Björgvin.

Leita að fjárfestum

Upphaflega gengu áformin út á veitingastað en nú er horft til heilsutengdrar starfsemi, svo sem jóga, hugleiðslu og slíks. „Það verður mjög gaman að byggja þetta upp til framtíðar og núna erum við að fara að leita að fjárfestum í þetta verkefni og halda áfram uppbyggingunni. Vonandi munu erlendir ferðamenn koma hingað og njóta þessa staðar og labba hér út í fólkvanginn og út í Páskahelli.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi