„Það var of snemmt að byrja að drekka 11 ára“

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar. - Mynd: RÚV / RÚV

„Það var of snemmt að byrja að drekka 11 ára“

27.05.2020 - 09:26

Höfundar

„Ég og áfengi áttum aldrei samleið, eða ég og fíkniefni,“ segir Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar sem byrjaði að neyta áfengis á barnsaldri, en drakk sinn síðasta drykk fyrir 25 árum. Foreldrar hans voru óreglufólk svo hann segir neyslu sína að mörgu leyti hafa verið óumflýjanlega þróun.

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar stýrði Airwaves-tónlistarhátíðinni í átta ár áður en hann lét af störfum 2018. Hann hefur mikla skipulagsgáfu en finnst leiðinlegt að taka til. Hann er bassaleikari, þroskaþjálfi og fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur. Hann segir frá æskunni sem litaðist af alkóhólisma foreldra hans, Airwaves sem honum þótti erfitt að skilja við og tengingunni við Vestfirði, í Segðu mér á Rás 1.

Mamma og pabbi voru ekki tilbúin til að verða foreldrar

Æskuheimili Gríms var fullt af ást en þar gekk líka á ýmsu sem gerði það að verkum að Grímur var kominn í mikla óreglu kornunugur. Hann segir foreldra sína í raun ekki hafa verið tilbúna til að eignast sig svo hann varði miklum tíma hjá ömmum sínum og langömmu. „Þegar pabbi og mamma voru hjón, fyrstu fimm ár ævi minnar, fluttum við gríðarlega oft. Stundum var maður með þeim, stundum öll á heimili ömmu minnar og stundum var ég þar einn. Svo á endanum þegar ég er átta ára verð ég eftir hjá ömmu minni,“ segir hann. 

Grímur var líka sendur í sveit á sumrin til langömmu sinnar á Raufarhöfn í sauðburð og heyskap. Langamma var í raun eins og amma því amma hans gekk honum í raun í móðurstað. Hann er alinn upp í kvennafans með langömmu sinni, ömmu, móðursystur og frænku sinni á heimili ömmu sinnar. „Amma mín var sjómaður, kokkur á loðnu- og sanddæluskipum og hún var í burtu oft í viku eða tvær. Þá þurfti ég að læra að bjarga mér fljótt, elda, þvo og fleira,“ segir hann en bætir því við að hann hafi þó ekki séð einn um húsverkin. Hinar konurnar á heimilinu gerðu ýmislegt og stundum kom mamma hans í heimsókn og hjálpaði til. „Hún var bóhem og hress kona. Það litaði líf mitt líka. Með fullt af erfiðu en líka fullt af hlutum sem ég hefði aldrei fengið frá borgaralegri tegund,“ segir hann glettinn.

Það er dýpra á bóhemnum í Grími en móður hans en hann segir hann þó blunda í sér. Hann er flökkusál eins og hún og heimsótti hana reglulega til Grikklands þegar hún flutti þangað. „Það er neikvæð hlið á þessu bóhemalífi en ég hef líka mikla ást á að fara til framandi staða, kynnast öðru og mismunandi fólki og mismunandi stöðum.“

Of snemmt að byrja að drekka ellefu ára

Grímur viðurkennir að það hafi ekki verið skynsamlegt að byrja að smakka áfengi ellefu ára. „Það var allt of snemmt. Ég og áfengi áttum aldrei samleið eða ég og fíkniefni,“ segir hann. „Ég er ekki að fela það, mitt uppeldi var þannig og það var kannski óumflýjanlegt.“ Foreldrar Gríms voru mikið drykkjufólk og faðir hans lést úr sjúkdómnum. „Hann drakk sig í hel og hafði í mörg ár á undan verið mjög veikur,“ segir hann. „Mamma var svo á miklum flótta undan sjálfri sér en öðruvísi. Hún náði betri tökum á lífi sínu og flutti til Grikklands, kom heim eftir fimmtán ár með systur mína sem ég er mjög þakklátur fyrir.“ Hún dó aðeins 62 ára eftir baráttu við krabbamein. 

„Annað hvort hættirðu eða deyrð“

Sjálfur varð Grímur fljótt stjórnlaus og fór að prófa ýmislegt. „Það var alltaf einhver mórall yfir alls konar hlutum sem gerir það að verkum að annað hvort hættirðu eða deyrð. Hjá mér var það þannig,“ segir hann. Eftir að hafa verið rekinn úr menntaskóla fór hann í meðferð. Hann prófaði nokkrar meðferðir í einhvern tíma en í febrúar 1995 drakk hann sinn síðasta drykk, nýorðinn 24 ára gamall. „Ég er mjög ánægður með það en hef þurft að taka til í ýmsum málum. Gerast aðeins borgaralegri og tengja mig,“ segir hann og hlær.

Erfitt að kveðja Airwaves

Hann hafði í mörg ár spilað í hljómsveitum og flutt inn hljómsveitir þegar hann fór að stýra Airwaves-hátíðinni sem átti hug hans allan hvert haust í átta ár. „Ég lagði svo mikið í þetta og þetta var mér svo mikið hjartans mál, að þetta myndi ganga og virka og annað.“ Eftir erfitt ár 2016 þegar hátíðin tapaði miklu fé skildu leiðir. „Við náðum okkur ekki upp úr því og því var hátíðin seld. En sá tími var kominn. Ég er ekki þannig að ég liggi hér alla daga og velti mér upp úr því en ég játa að þetta var erfitt.“

Lífið á Bolungarvík

Eftir vel heppnað tónleikahald með Emilíönu Torrini í Bolungarvík tók lífið óvænta stefnu. Grímur fékk hugmyndina um að gerast þar bæjarstjóri árið 2006 og því embætti gengdi hann um árabil. Fjölskyldan undi sér vel á Vestfjörðum og það var ekki fyrr en síðasta haust sem þau slitu tengsl við þá þegar þau seldu loks húsið sitt þar. „Við föttuðum að það væri hið rétta í stöðunni. Þetta voru nokkrar dýrar vikur á ári.“

Ekki hlynntur endalausum greiningum

Það var svo fyrst og fremst menntunin og persónuleg reynsla Gríms sem gerði það að verkum að hann bauð fram krafta sína þegar Geðhjálp leitaði að framkvæmdastjóra. Stjórnina segir hann öfluga og notendamiðaða og tekur hún ákvarðanir sem Grímur framfylgir. „Við höfum svo lengi miðað allt frá sérfræðingaáliti. Læknisfræðilegt mat á fólki ræður of miklu,“ segir hann. „Geðlæknisfræði er viðkvæm því hún tekur mið af ástandi sem er akkúrat núna. Þú ert einhvern veginn og ég að meta þig. Núna sé ég þetta í þér, sem kann að vera rétt á því augnabliki.“

Hann segir að fyrir hálfri annarri öld hafi fólk verið skilgreint á sex mismunandi hátt en í dag sé hægt, með greiningarhandbækur að vopni, að greina fólk í mörghundruð útgáfur af sjálfu sér. „Þetta er ekki notendamiðað heldur miðað út frá því hvort það séu hvatar frá lyfjarisum til dæmis,“ segir hann. Hann er ekki hrifinn af því að stimpla fólk en telur mikilvægt að viðeigandi og notendamiðuð aðstoð sé í boði fyrir alla á ólíkum stigum lífsins. „Nú þurfum við að bregðast við lífi fólks á öllum stöðum, í leikskóla og í gegnum lífið. Ístað þess að vera í þessari endalausu greiningu á ástandi, svo ertu bara stimplaður og berð hann út í lífið.“

Það er mikið fram undan í sumar hjá Grími en plön hafa auðvitað breyst eitthvað sökum heimsfaraldurs. Hann hafði til dæmis í hyggju að flytja inn ameríska indírokkbandið Big Thief sem áttu að spila í Hljómahöll í júní en ekkert verður af þeim tónleikum í bili. „Þeir voru blásnir af en þessi hljómsveit er stórkostleg. Þetta hefðu verið frábærir tónleikar en þeir verða á næsta ári í staðinn,“ segir hann brattur að lokum.

Rætt var við Grím Atlason í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“

Menningarefni

„Þetta eru myndir sem ég sýni engum“