Samstarf Norðurlandanna um lyfjakaup er hafið

27.05.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð hafa saman óskað eftir því að kaupa lyfið Zynteglo. Þetta er fyrsta lyfið sem Norðurlöndin sækjast eftir að kaupa sameignlega en samstarf Norðurlandanna á þessu sviði hefur lengi verið til umræðu.

BlueBird Bio er markaðsleyfishafi lyfsins sem notað er við sjaldgæfum blóðsjúkdómi. Sagt er frá þessu á vef stjórnarráðsins. Með samningnum er vonast til að hægt sé að ná hagstæðara verði á dýrum frumlyfjum en hingað til, möguleikar á innleiðingu nýrra lyfja verði meiri og að sjúklingum hér á landi standi til boða sambærileg meðferð og annars staðar á Norðurlöndunum. 

Samningaviðræður hefjast í næsta mánuði

Samningaviðræður landanna við markaðsleyfishafa hefst í júní og er stefnt að því samningsskilmálar landanna verði eins. Hvert land fyrir sig taki síðan ákvörðun um hvort lyfið verði notað og um greiðsluþátttöku. 

Lyfið verður samþykkt á Íslandi ef það verður tekið í notkun hjá öðrum norrænum þjóðum en einnig þarf samþykki lyfjanefndar Landspítala og lyfjagreiðslunefnd þarf að staðfesta greiðsluþátttöku. 

Lyf oft dýrari á Íslandi

Ný dýr lyf eru oft mun dýrari hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og hefur innleiðing nýrra og dýrra lyfja oft verið mikil áskorun. Innkaupasambönd sjúkrahúsa í Noregi og Danmörku hafa á síðustu tólf mánuðum náð að semja um 40 til 46% afslátt af skráðu lyfjaverði.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gleðst yfir því að þetta norræna samstarf sé orðið að veruleika. „Lyfið sem um ræðir er ekki stóra málið í þessu samhengi. Það sem skiptir máli og er í raun stórfrétt er að hafa náð þessum áfanga í norrænum samningakaupum lyfja.“ Lyfjakostnaður hafi verið hlutfallslega mjög stór og ört vaxandi útgjaldaliður. Árangur á þessu sviði geti því skilað fjárhagslegum ávinningi og bættri meðferð fyrir sjúklinga.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi