Ísland ekki „hjálplegt“ við rannsókn Samherjaskjala

27.05.2020 - 07:58
Mynd með færslu
James Hatuikulipi, Bernhard Esau og Sakesu Sacky Shanghala. Mynd: The Namibian
Karl Cloete, einn aðalrannsakandi ACC spillingarlögreglunnar í Namibíu, segir að upphæðin sem hinir svokölluðu sex-menningar eru ákærðir fyrir að hafa þegið í greiðslur til að tryggja fyrirtækjum í eigu Íslendinga eftirsóttan kvóta í landinu, hafi hækkað. Hún hafi hækkað úr 103 milljónum namibískra dollara í 130 milljónir sem jafngildir 1,2 milljörðum íslenskra króna. Hann segir yfirvöld í fjórum löndum ekki hafa verið „hjálpleg“ við rannsókn málsins.

„Við reiknum með að upphæðin eigi eftir að hækka þegar við náum samstarfi við yfirvöld á Íslandi, Angóla, Dúbaí og Spáni. Á þessari stundu hafi þessi lönd ekki verið hjálpleg (e.forthcoming),“ sagði Cloete þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi í máli eins sex-menninganna, Ricardo Gustavo. „Við munum halda áfram að reyna þar sem við teljum að meira en þriðjungur af upphæðinni hafi farið til félaga utan Namibíu.“

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, hefur lítið viljað tjá sig við fjölmiðla um rannsókn íslenskra yfirvalda á Samherjaskjölunum.  Í samtali við fréttastofu segir að þeim hafi borist nokkrar réttarbeiðnir frá Namibíu og þau mál séu í vinnslu. Engum hafi verið hafnað. Þá hafi embættið verið í nokkrum samskiptum við ríkissaksóknaraembættið í Namibíu. 

Í Mannlífi um helgina var haft eftir honum að málið væri viðkvæmt og að ástandið vegna COVID-19 hefði tafið fyrir. „Okkur hefur ekki gengið vel að fá fólk inn í yfirheyrslur í málinu, bæði lögmenn og skjólstæðingar þeirra voru tregir að mæta og báru fyrir sig áhyggjur af smiti. Við gátum lítið annað en tekið tillit til þess.“  Þá hefði mannskapur verið lánaður til rakningarteymisins vegna farsóttarinnar.
ATHS: Ólafur segir í samtali við fréttastofu að tilvitnuðum ummælum hafi hann eingöngu verið að vísa til stöðunnar almennt hjá embættinu en ekki til rannsóknarinnar á Samherjaskjölunum.

Ricardo Gustavo krefst þess að verða sleppt lausum gegn tryggingu.  Hann var framkvæmdastjóri fyrirtækisins Namgomar sem Samherji fékk kvóta í gegnum á grundvelli milliríkjasamnings við Angóla. Hann er í hópi þeirra sem hafa verið ákærðir fyrir að hafa þegið greiðslur frá Mermaria Seafood Namibia og Esja Seafood á árunum 2014 til 2019.

Hann sagði við skýrslutöku að hann myndi neita sök því hann hefði aldrei stolið neinu í lífi sínu.  Hann þyrfti að fá tækifæri til að framfleyta fjölskyldu sinni sem hefði þjáðst vegna varðhaldsins og þeirra ásakana sem á hann hefðu verið bornar.  Hann væri reiðubúinn til að greiða 100 þúsund namibískra dollara í tryggingu. 

Réttarhöldin halda áfram í dag, að því er fram kemur á vef New Era LIve í Namibíu.

Fréttin hefur verið leiðrétt.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi