16 ára og eldri fá að kjósa um nafn nýs sveitarfélags

27.05.2020 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Kosið verður til sveitarstjórnar í nýju sveitarfélagi á Austurlandi 19. september. Undirbúningsstjórn hefur sent tillögu þess efnis til staðfestingar ráðherra. Eftir kosningarnar ganga fjögur sveitarfélög í eina sæng, Fljótsdalshérað, Borgarfjörður eystri, Seyðisfjörður og Djúpivogur. Íbúar samþykktu sameininguna í október.

Um leið og ný sveitarstjórn verður kosin verður kosið til svokallaðra heimastjórna á hverjum stað. Íbúar þurfa hins vegar ekki að bíða til haustsins með að velja nafn á sveitarfélagið. Kosning um 6 nafnatillögur verði samhliða forsetakosningum laugardaginn 27. júní.

Auglýst var eftir hugmyndum að heiti á sameinað sveitarfélag í upphafi árs og bárust 112 tillögur. Sautján tillögur fóru til umsagnar hjá Örnefnanefnd. Greidd verða atkvæði um eftirfarandi tillögur.

Austurþing

Austurþinghá

Drekabyggð

Múlabyggð

Múlaþing

Múlaþinghá

Fram kemur í tilkynningu frá Fljótsdalshéraði að kosningaaldur í kosningu um heiti sveitarfélagsins miðast við 16 ára aldur. Kjósendum verði boðið að velja fyrsta og annan valkost. Niðurstöður eru ekki bindandi og tekur ný sveitarstjórn ákvörðun um nýtt heiti þegar hún kemur til starfa í október.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi