Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þetta er alveg búið að vera frekar grillað“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þetta er alveg búið að vera frekar grillað“

26.05.2020 - 19:52

Höfundar

„Það er aðeins búið að róast. Ég er kannski skipulagðari með tímann minn því ég hef minna af honum en lífið mitt er voða svipað sko,“ segir Daði Freyr tónlistarmaður sem hefur átt tröllauknum vinsældum að fagna eftir Eurovision-keppnina sem aldrei varð. 

Aðdáendahópur Daða og Gagnamagnsins hefur margfaldast að stærð undanfarnar vikur. Til að mynda er lagið Think About Things komið með tæplega 13 milljónir spilana á Spotify og myndbandið við lagið, sem og endurleikur almennings á Daðadansinum svokallaða, gengur eins og stafrænn eldur í sinu.

Daði segir vinsældirnar þó ekki hafa kollvarpað sínu daglegu lífi, að hluta til vegna COVID-19 faraldursins. „Þetta náttúrulega gerist allt gegnum netið og maður má ekkert vera að halda neina tónleika eða neitt svoleiðis. Ég hef reyndar verið stoppaður þegar við vorum úti hérna, það eru einhverjir Þjóðverjar sem kannast við mann og hafa stoppað mig úti á götu.“

Gott partí í Rotterdam

Hann segir vonbrigðin yfir Eurovision hvorki þungbær né langvarandi. „Ég hefði viljað fara með Gagnamagninu og halda gott partí í Rotterdam. Það er eiginlega það eina sem mér finnst leiðinlegt við að vera ekki að fara. Ég sé ekkert eftir athyglinni sem hefur komið í kjölfarið. Það gengur ágætlega án.“

Sem fyrr segir hefur Daðadansinn slegið í gegn og netverjar víða um heim hafa reynt fyrir sér í honum með fjölbreyttum árangri. „Í myndböndum af fólki dansa dansinn sér maður hvernig er heima hjá fólki og þannig, allir að gera þetta með fjölskyldunum sínum og svoleiðis. Þá skynjar maður svolítið skalann á þessu, þetta er alveg búið að dreifast hressilega. Þetta er alveg búið að vera frekað grillað, sko.“

Full vinna næstu árin

Að mati Daða er mikilvægasti þáttur vinsældanna trygging á áframhaldandi starfi sem tónlistarmaður. „Ég er búinn að vera að vinna að því að ná að vinna „full time“ sem tónlistarmaður síðustu 15 ár og það hefur tekist síðustu 3 ár, en núna sé ég fram á að geta gert það áfram næstu árin, allavegana.“

En hvað ætli taki svo við? „Ég ætla að vinna í nýrri músík en svo í lok árs er ég að fara í lítinn Evróputúr. Við erum búin að selja upp tvisvar í London, tvisvar í Dublin, ég held það sé uppselt í Hamburg, ég sá á Twitter í dag að það sé uppselt í Köln en ég er ekki alveg viss, svo það gengur ágætlega,“ segir hann.

Það verður dansað

Eitt af hliðarverkefnum Daða að undanförnu hafa verið tónsmíðar fyrir Barnamenningarhátíð á Íslandi. „Þau höfðu samband í lok síðasta árs og við fengum svo krakka í fjórða bekk á höfuðborgarsvæðinu til þess að senda inn hugmyndir að texta og ég samdi lagið út frá því. Hátíðin hefði verið haldin í Hörpu en í staðinn þá er ég með svona litla heimatónleika.“

Aðspurður segir hann enn óljóst hvenær næstu tónleikar á Íslandi verði. „Ég veit það ekki, eins og planið er núna er ég að vonast til að Airwaves verði haldið og þá hugsa ég að það verði þá. Það verður dansað sko.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Sendu Eid-kveðjur frá Malasíu með Daða-dansi

Menningarefni

Daðafár á Írlandi - Think about things á topp 5

Tónlist

Glænýtt lag Daða og fjórðubekkinga

Popptónlist

„Fimm Daðar er samt ekki nóg“