Skemmtilegast að mála úti á vorin

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Skemmtilegast að mála úti á vorin

26.05.2020 - 10:44

Höfundar

„Það er bara allt önnur upplifun að mála úti. Þú ert í miklu nánari tengslum við mótívið, náttúruna og veðrið,“ segir Ragnar Hólm Ragnarsson listamaður á Akureyri. Hann og félagi hans Guðmundur Ármann fara reglulega út með trönurnar sínar og vatnslitina og mála saman úti í náttúrunni. 

„Ætli séu ekki svona 18/19 ár síðan ég uppgötvaði þetta. Ég var alltaf inni á vinnustofunni og var bara endalaust að endurtaka sömu liti og sömu form. Svo kemur maður út og er bara, Vá sjáðu þessa liti!“ segir Guðmundur Ármann. 

Það var sól og blíða þegar Landinn hitti þá félaga í Eyjafirði. Þeir fara út að mála allan ársins hring en eru sammála um að vorið sé besti tíminn. „Þessi árstími er eiginlega í uppáhaldi hjá mér,“ segir Guðmundur. Það er að segja þegar fjöllin eru svona grafísk. Þessi teikning sem er í fjöllunum núna er óskaplega heillandi.“