Leverkusen og Gladbach misstigu sig

epa08445878 Marin Pongracic (R) of Wolfsburg scores the 1-0 lead against Leverkusen's goalkeeper Lukas Hradecky (L) during the German Bundesliga soccer match between Bayer Leverkusen and VfL Wolfsburg in Leverkusen, Germany, 26 May 2020.  EPA-EFE/MARIUS BECKER / POOL ATTENTION: The DFL regulations prohibit any use of photographs as image sequences and/or quasi-video.
 Mynd: EPA-EFE - DPA POOL

Leverkusen og Gladbach misstigu sig

26.05.2020 - 20:25
Þrír leikir voru leiknir í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Bayer Leverkusen og Borussia Mönchengladbach misstigu sig í baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Leverkusen hafði unnið báða leiki sína eftir að keppni hófst í þýsku deildinni á ný í kjölfar hlés vegna COVID-19. Eftir tap Dortmund fyrir Bayern Munchen fyrr í dag gátu bæði Leverkusen og Borussia Mönchengladbach gert harða atlögu að öðru sæti deildarinnar.

Leverkusen fékk Wolfsburg í heimsókn í kvöld og stýrði liðið ferðinni í leiknum. Þrátt fyrir að vera töluvert meira með boltann gekk heimamönnum bölvanlega að skapa sér marktækifæri sem kom í bakið á þeim er Martin Pongracic veitti Wolfsburg forystuna með marki undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleiknum voru heimamenn áfram meira með boltann en færin létu áfram á sér standa. Wolfsburg ógnaði með skyndisóknum og föstum leikatriðum en Max Arnold skoraði beint úr aukaspyrnu á 64. mínútu eftir að boltinn fór af leikmanni í varnarvegg Leverkusen. Renato Steffen skoraði þriðja mark Wolfsburg með góðum skalla fjórum mínútum síðar og þá skoraði Pongracic sitt annað mark og fjórða mark Wolfsburgar stundarfjórðungi fyrir leikslok. Austurríkismanninum Julian Baumgartlinger tókst að laga stöðuna fyrir Leverkusen fjórum mínútum fyrir leikslok er hann skoraði úr fyrsta skoti liðsins á markrammann í leiknum. 4-1 urðu þó lokatölur gestunum frá Wolfsburg í vil.

Eftir tapið fer Leverkusen úr fjórða sæti niður í það fimmta í deildinni með 53 stig. Markalaust jafntefli Borussia Mönchengladbach við Werder Bremen í kvöld þýðir að Gladbach fer upp fyrir Leverkusen í fjórða sætið vegna betri markatölu. Wolfsburg er í sjötta sæti með 42 stig, ellefu stigum frá Leverkusen og Gladbach.

Í því sjöunda er lið Freiburgar sem fór illa að ráði sínu í heimsókn sinni til Frankfurt. Ítalinn Vincenzo Grifo kom Freiburg þar yfir áður en André Silva jafnaði fyrir Eintracht Frankfurt. 1-1 stóð í leikhléi en mörk Nils Petersens og Lucasar Höler á tveggja mínútna kafla um miðjan síðari hálfleik komu Freiburg 3-1 yfir. Tíu mínútum síðar, á 79. mínútu, minnkaði Daichi Kamada muninn fyrir Frankfurt og þremur mínútum eftir það hafði Bandaríkjamaðurinn Timothy Chandler jafnað metin fyrir Frankfurt. 3-3 urðu því úrslit leiksins í Frankfurt.

Staða efstu liða í deildinni

1 Bayern Munchen 28 +53 64
2 Borussia Dortmund 28 +40 57
3 RB Leipzig 27 +41 54
4 B. Mönchengladbach 28 +19 53
5 Bayer Leverkusen 28 +17 53
6 Wolfsburg 28 +6 42
7 Freiburg 28 -2 38

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Vippa Kimmich styrkti stöðu Bæjara á toppnum