„Heilmikill andi úti um allt land“

Mynd: RÚV / RÚV

„Heilmikill andi úti um allt land“

26.05.2020 - 21:00
Keppni í Skólahreysti fer aftur af stað á fimmtudag eftir COVID-19 hlé. Skammt er eftir af skólaárinu hjá grunnskólakrökkum, því verður mikið span að ná að klára keppnirnar og verður keyrt stíft í Laugardalshöll.

Skólahreysti náði að klára forkeppnir á Norðurlandi áður en samkomubann skall á. Þáttur um þær keppnir verður sýndur á RÚV annað kvöld. Svo tekur við mikil keyrsla í Laugardalshöll og verða fimm beinar útsendingar frá fimmtudegi til laugardags.

„Það er alveg heilmikill andi í gangi í krökkum bara úti um allt land og ég veit að þau eru rosalega spennt bara að komast úr bílskúrnum, úr stofunni þar sem þau taka armbeygjur og að hlaupa hraðaþraut í garðinum, og þess vegna þau eru rosaspennt að komast núna út og fara í keppnina.“ segir Andrés Guðmundsson, skipuleggjandi og stofnandi Skólahreystis.

Venjulega taka um 100 skólar þátt í Skólahreysti á hverju ári. Andrés segir ótrúlega góða heimtur þrátt fyrir faraldurinn þó ekki hafi alveg allir skólar ákveðið að vera með á endasprettinum.

„Bara alveg ótrúlega góð þátttaka. Það eru fjörutíu skólar sem mæta núna í þessa tvo daga, sem sagt fjóra riðla, og við erum búin, náðum að fara á Akureyri fyrir COVID. Náðum þá tuttugu skólum þar. Þess vegna er þetta fínt, þetta er gott að klára þetta svona.“

En hvaða ráðstafanir þarf að gera varðandi keppnina vegna ástandsins af völdum kórónuveirunnar?

„Já já, við ætlum að reyna eða höfum bara allt í lágmarki. Höfum enga áhorfendur á pöllunum og höfum til dæmis enga varamenn með liðunum og bara einn íþróttakennara. Við erum búin að taka þetta niður allt saman reglulega og svo verðum við með lágmarksmannskap þess vegna. Við viljum ekkert vera að ögra veirunni neitt og svona. Við höfum ekki fengið skammarbréf í Skólahreysti í 16 ár og viljum halda borðinu hreinu enn þá.“ segir Andrés.

Norðurlandsþátturinn er á RÚV klukkan 20:00 annað kvöld. Beinar útsendingar hefjast á fimmtudag og verður ein keppni klukkan 14:30 og önnur klukkan 17:00 og sami háttur á föstudag. Úrslitin verða svo í beinni útsendingu RÚV á laugardag klukkan 19:40.