„Hann er alltaf einn af okkur“

Mynd: - / Aðsend

„Hann er alltaf einn af okkur“

26.05.2020 - 11:17

Höfundar

Kristín Aðalheiður Símonardóttir fæddi andvana dreng eftir legvatnsástungu árið 1999. „Það eru að manni skilst 99% líkur á því að allt gangi vel í svona en þetta eina prósent gerðist hjá mér. Svona fór þetta. Virkilega erfitt,“ segir hún.

Kristín Aðalheiður, eða Heiða eins og hún er oftast kölluð, ólst upp á Dalvík ásamt þremur systkinum. Hún var skapstór sem barn og öskraði stundum svo hátt til að fá sínu framgengt að hún blánaði í framan. „Það var þessi íslenska frekja. Ég var ákveðin en stóð fast á mínu,“ segir hún. Heiða fór ung á sjóinn og var háseti á Stefáni Rögnvaldssyni upp úr tvítugu. „Það var virkilega gaman, strákarnir sögðu mér hvað ég ætti að gera. Að ég ætti að verka og fylgjast með mælunum,“ rifjar hún upp. „Það var aðeins um það á Dalvík að stelpur væru að prófa þetta. Sumar höfðu þetta að atvinnu.“ Hún er afar handlagin, hefur gaman að því að skreyta og hefur sótt námskeið á vegum blómaskreyta. Heiða heldur úti heimasíðunni Dundað á Dallas þar sem fólk deilir ýmsu því sem þau gera sér til dundurs, föndri, bakstri, hreyfingu eða skemmtilegum húsráðum.

Hún starfaði í blómabúðinni Ílex, seldi blóm og gjafavöru og gerði blómaskreytingar fyrir skírnir, brúðkaup og afmæli en einnig fyrir sorgarstundir því hún gerir kransa og kistuskreytingar fyrir útfarir. Og hún gerði eina slíka fyrir son sinn sem fæddist andvana fljótlega eftir að Heiða fór í legvatnsástungu. Hún var gestur Gígju Hólmgeirsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2 þar sem hún sagði frá lífinu á Dalvík, kaffihúsinu Gísla, Eiríki og Helga sem hún rekur og missinum sára.

Ólst upp við sögurnar af Bakkabræðrum

Húsinu sem fjölskyldan býr í á Dalvík fylgir gamall bær sem langafi og -amma Heiðu bjuggu í. Til að heiðra minningu langforeldra sinna ákvað Heiða að gera upp gamla bæinn. Það var dýrt verkefni og til þess að geta borgað það upp datt Heiðu í hug að vera með rekstur í húsinu. Hún fór á námskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð og komst að því að hana langaði að starfa við ferðaþjónustu. Þau keyptu gamla læknishúsið á Dalvík og breyttu því í gistiheimili en fannst ekki nóg að leyfa gestum bara að hvílast, þau vildu líka bjóða upp á afþreyingu. „Hvað höfum við á Dalvík sem enginn annar hefur? Maður ólst upp við sögur af Bakkabræðrunum af Bakka í Svarfaðardal,“ segir hún. Hún opnaði því kaffihús árið 2013, þeim bræðrum til heiðurs sem er í senn nokkurs konar sögusetur um bræðurna klaufsku og það hefur gengið vonum framar. 

„Það lokast ekki fyrir stunguna“

Heiða kynntist eiginmanni sínum á Sjallanum á Akureyri þegar hún starfaði þar. Hjónin eiga fjögur börn, þrjár dætur og einn son sem fæddist andvana. Tvær elstu dæturnar búa í Reykjavík, önnur er tannlæknir og hin er félagsráðgjafi. Yngsta dóttirin er að verða tvítug og stefnir á íþrótta- og heilsufræði í háskóla. Heiða gekk með son sinn árið 1999 og var boðið að fara í legvatnsástungu. „Ástungan gekk vel en svo stoppar ekki legvatnið, það lokast ekki fyrir stunguna. Það heldur áfram að leka og ég ligg á sjúkrahúsinu í mánuð,“ rifjar hún upp. „Ég er látin liggja og vona það besta en það fór því miður þannig að ég fæddi drenginn andvana. Hann var ekki nógu tilbúinn, þetta var rétt um tuttugu og fimm vikna meðganga.“ Við tók mikill álagstími fyrir fjölskylduna og gríðarleg sorg. „Það eru að manni skilst 99% líkur á því að allt gangi vel í svona en þetta eina prósent gerðist hjá mér. Svona fór þetta. Virkilega erfitt.“

Alltaf gott að tala um hann

Hún segir erfitt að losa sig við samviskubitið yfir að hafa þegið legvatnsástunguna. Það var heldur aldrei ætlun hjónanna að fara í fóstureyðingu, jafnvel þó kæmi í ljós að eitthvað amaði að. Þau vildu einfaldlega vita hver staðan væri áður en drengurinn kæmi í heiminn. „Auðvitað læðist að manni ásökunin fyrir að hafa gert þetta en mér fannst að þar sem boðið væri upp á þetta værum við undirbúin ef það væri litningagalli. Við hefðum ekki farið í fóstureyðingu en vildum skoða stöðuna,“ segir hún. Hjónin fengu að vita að allt liti vel út með drenginn og hann væri heilbrigður áður en hann fæddist. Fimmtánda nóvember, á alþjóðlegum degi barnamissis, fæddist drengurinn og fékk hann nafnið Bjarni Heiðar. Hjónin fengu að hafa hann hjá sér eins og þau vildu og þau tóku myndir af honum. Þegar þau voru loksins tilbúin að taka hann með sér heim var hann lagður í litla kistu og fjölskyldan keyrði með hann til Dalvíkur. „Við fórum með hann í líkhúsið á Dalvík. Þar var ægilega vel tekið á móti okkur líka. Við fengum að sjá hann eins og við vildum og kveðja hann þegar við treystum okkur til að standa í útför. Þetta er ægilega skrýtinn tími en mér þykir alltaf gott að tala um hann og hann er alltaf einn af okkur.“

„Við eigum ekki að þegja svona áföll“

En tíminn eftir missinn var erfiður. Heiða fékk mjólk í brjósin og líkaminn var tilbúinn að næra barnið sem lést. „Þetta var erfitt. Gríðarlega erfitt.“ Hún segir mikilvægt að tala um áfallið og sorgina og Heiðar er tilbúin að ljá þeim eyra og hjálparhönd sem eru að ganga í gegnum svipaðan missi. „Við eigum að tala um þetta, ekki þegja svona áföll.“

Hjónunum var ráðlagt að ræða ekki við dæturnar um bróður þeirra og sagt að þeim væri hollast að gleyma þessu. Þau fóru hins vegar hina leiðina. „Okkur fannst það ekki faglegt, við ákváðum að leyfa þeim að taka þátt í sorginni og tala um hann. Ef þeim liði illa gætum við grátið saman og við gerðum það oft á kvöldin þegar þær voru að fara að sofa. Það hjálpaði okkur mikið.“

Fjölskyldan talar enn í dag reglulega um Bjarna Heiðar. „Auðvitað er sorg yfir því að hann er ekki með okkur en við höfum rætt: Hvað væri hann að gera í dag? Hvernig liti hann út? Hann hefði orðið tvítugur í fyrra og við komum saman ef þær eru heima á afmælisdaginn hans og förum upp í kirkjugarð með kerti.“

Rætt var við Kristínu Aðalheiði í Sunnudagssögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Sorgin er eins og svartur steinn í hjartanu“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“