EM í hópfimleikum frestað - Íslandsmótið í haust

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Arason - Fimleikasamband Íslands

EM í hópfimleikum frestað - Íslandsmótið í haust

26.05.2020 - 08:20
Evrópska fimleikasambandið sendi frá sér tilkynningu á dögunum um að Evrópumótinu í hópfimleikum, sem átti að fara fram í Danmörku í október á þessu ári, hafi verið frestað fram í apríl á næsta ári vegna kórónuveirufaraldursins. EM mun þess í stað fara fram dagana 14.-17. apríl 2021 í Kaupmannahöfn.

Íslandsmótinu í hópfimleikum var frestað í vor vegna faraldursins en nú ætlar Fimleikasambandið að nýta þær dagsetningar sem losnuðu í október undir Íslandsmótið í hópfimleikum. Íslandsmótið mun því fara fram 17. október á þessu ári. 

Mikill áhugi er fyrir EM í Kaupmannahöfn en alþjóðafimleikasambandið hafði boðið liðum utan Evrópu að taka þátt og átti mótið að vera eins konar óopinbert heimsmeistaramót. Alþjóðafimleikasambandið bindur vonir við að með breyttri dagsetningu sjái fleiri lönd sér fært að taka þátt.

Ljóst er að það er bæði flókið og kostnaðarsamt að púsla íslenska keppnistímabilinu saman við Evrópumótið þar sem EM mun nú fara fram ofan í mitt tímabil á Íslandi. Ísland ætlar að senda tvö lið til keppni í fullorðinsflokki, kvennalið og blandað lið fullorðinna, auk tveggja liða í unglingaflokki, stúlknalið og blandað lið unglinga. Ísland hefur átt góðu gengi að fagna á Evrópumótum hingað til en kvennaliðið hefur unnið tvo Evrópumeistaratitla, árið 2010 og 2012. Þar að auki vann stúlknaliðið árið 2012 og 2016. Á síðasta Evrópumóti var kvennaliðið hársbreidd frá sigri og bæði blandað lið fullorðinna og stúlknalið höfnuðu í þriðja sæti.