Binda miklar vonir við íslenskt ferðasumarið

26.05.2020 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að ferðaþjónustufyrirtæki bindi miklar vonir við að hægt verði að fá Íslendinga til að ferðast um landið í sumar. Ný könnun sýnir að ríflega 90 prósent landsmanna áforma að ferðast innanlands á næstu mánuðum.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um rafræna ferðaávísun. Frumvarpið felur í sér að þeir sem eru fæddir árið 2002 og fyrr fá fimm þúsund króna inneign sem þeir geta nýtt hjá ferðaþjónustufyrirtækjum hér á landi.

Ráðherra segir að þetta sé fyrst og fremst táknræn gjöf en markmiðið sé að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands.

„Þetta mun ekki bjarga ferðasumrinu fyrir öll fyrirtæki en það er mikill munur á minni fyrirtækjum úti á landi með ekkert svo mikla afkastagetu ef þau fá töluverð viðskipti frá Íslendingum þá getur það breytt mjög miklu í rekstri fyrirtækjanna,“ segir Þórdís.

Frumvarpið var kynnt á opnum fundi Ferðamálastofu og Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun. Þar var einnig kynnt ný könnun sem sýnir að um 90 prósent Íslendinga áforma að ferðast innanlands í sumar, sýnu fleiri konur en karlar.

„Það liggur fyrir að Íslendingar munu ferðast talsvert í seinni hluta júní og júlí, júlí er hefðbundinn tími til að ferðast um landið. Við gerum þá ráð fyrir því að erlendu ferðamennirnir muni koma þegar líður á sumarið og þannig taki þeir við af Íslendingum þegar þeir eru búnir að ferðast um landið,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.

Ferðaþjónustufyrirtæki sem eru almennt vanari að sinna fyrst og fremst erlendum ferðamönnum hafa að undanförnu verið að bjóða Íslendingum upp á tugprósenta afslátt. Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir þetta sýna að fyrirtækin leggi mikla áherslu á að fá Íslendinga til að ferðast um landið.

„Fyrirtækin eru í þeirri stöðu núna að þau sjá ekki fram á að þeirra tæki og húsnæði verði nýtt á borð við það sem er á venjulegu ári. Það þýðir að fyrirtækin vilja kannski bjóða Íslendingum upp á að nýta tækin og gistinguna og allt það sem í boði er fyrir lægra verð þrátt fyrir að þau viti að þau ná ekki að standa undir kostnaði með því, þannig að ég held að tilboðin þurfi að skoðast í því samhengi,“ segir Jóhannes.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi