Stór hluti barna í vímuefnavanda féll í samkomubanninu

25.05.2020 - 21:52
Mynd: RÚV / RÚV
Stærstur hluti ungmenna í bata, sem starfsfólk Foreldrahúss heyrir af eftir lokanir í samkomubanninu, hefur fallið. Framkvæmdastjóri hússins segir dæmi um að þrettán til sextán ára börn hafi tekið inn LSD og amfetamín í samkomubanninu. 

Foreldrahús - vímulaus æska, styður börn, ungmenni og foreldra vegna vímuefnavanda ungs fólks. Þar er veitt sálfræðiþjónusta og ráðgjöf og boðið upp á sjálfstyrkingarnámskeið og foreldrahópa. Þá er símaþjónusta allan sólarhringinn í Foreldrasímanum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eddi Jónsson - RÚV
Berglind Gunnarsdóttir.

Þegar Foreldrahús var opnað aftur núna 4. maí kom í ljós að margt hafði breyst. 

„Afleiðingar COVID eru þær að ungmenni hafa fallið. Edrúmennska reynist þeim ekkert sérstaklega auðveld. Þeir hafa ekki komist í viðtöl hjá ráðgjöfum, ekki komist á AA-fundi og ekki í íþróttir, vinnu eða skóla,“ segir Berglind Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Foreldrahúss. 

Hvað er þetta stór hluti?

„Ég veit það ekki, ég vil ekki kasta tölu á þetta beint. En það eru bara mjög margir sem við heyrum um hér.“

Er þetta stærstur hlutinn sem þið heyrið af hér?

„Já, við gerum það. Og alveg þessi 18 ára og yfir og svo líka grunnskólakrakkar.“

Þannig að stærstur hluti þeirra sem voru kannski byrjaðir að feta bataveg að þau virðast ekki gera það lengur?

„Nei, þau réðu ekki við að það kom svona stopp.“

Mörg þeirra, sem orðin eru lögráða, búa enn í foreldrahúsum. 

„Þannig að ástandið á heimilinu er mjög alvarlegt og erfitt. Það er mjög niðurdrepandi að vera foreldri ungmenna sem eru í neyslu. Það er eiginlega bara ómöguleg staða.“

Hún segir að þótt grunnskólar hafi verið opnir hafi ekki verið full starfsemi og utanumhaldið allt annað: 

„Og við höfum fengið alveg frá 13 og upp í 16 ára börn sem hafa verið að reykja og taka inn LSD og amfetamín og allt mögulegt og núna á þessum tíma.“

Fyrir utan það að koma upp rútínunni aftur segir Berglind mikilvægt að fá börnin og ungmennin til að leita sér hjálpar og ráðgjafar strax því þó það hafi komið afturkippur eða hrösun þá sé hægt að rísa upp á ný. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi