Setja spurningamerki við játningar dæmds morðingja

25.05.2020 - 20:25
Erlent · Danmörk · Glæpir
Mynd: RÚV/Grafík / RÚV/Grafík
Áratugagamlar játningar þroskaskerts manns, sem var dæmdur í Danmörku fyrir að myrða 38 menn, konur og börn, eru nú dregnar í efa. Séu ásakanir um brotalamir í yfirheyrslum á rökum reistar, yrði það eitt stærsta hneykslismál danskrar réttarsögu, segir norskur sérfræðingur. Þetta kemur fram í nýrri heimildaþáttaröð sem frumsýnd verður í Danmörku í kvöld.

Þrjátíu og fimm manns, þar af fimm börn, létust í eldsvoða á Hótel Hafnia í Kaupmannahöfn árið 1973. 

Maðurinn sem var handtekinn og síðar dæmdur fyrir brunann hét Erik Solbakke Hansen. Hann játaði jafnframt að hafa nauðgað og myrt 15 ára stúlku árið 1980 og að hafa kveikt í tveimur húsum í Esbjerg með árs millibili, þar sem tvö létust. Hann játaði sömuleiðis að bera ábyrgð á 27 öðrum eldsvoðum. 

Hér má lesa umfjöllun TV2 um mál hans. 

Ný heimildarþáttaröð, Tilståelsen eða Játningin, verður frumsýnd á TV2 í Danmörku í kvöld. Þar er fjallað um mál Eriks Solbakke Hansen, sem af mörgum hefur verið nefndur einn alræmdasti raðmorðingi í sögu Danmerkur, en hann lést árið 1997. 

Í þáttunnum er meðal annarra til viðtals Flemming Bergquist, sem er einn þeirra sem vann að rannsókninni á sínum tíma, þangað til hann sagði sig frá verkinu. Ástæðan var sú að hann sagði engin sönnunargögn styðja málsókn gegn Erik Solbakke.

Ekkert nema játningar hans, og nú setja sérfróðir meira að segja spurningarmerki við þær. Hansen var þroskaskertur og systir hans segir hann hafa verið afar leiðitaman. 

„Dönsk stjórnvöld þurfa að flýta sér að koma á fót óháðri rannsóknarnefnd. Hún verður að fara yfir allt málið upp á nýtt því þetta gæti veirð mesta réttarhneyksli sem sést hefur í Danmörku nútímans,“ segir Asbjörn Rachlew, sem er einn helsti sérfræðingur heims í yfirheyrsluaðferðum. Hann er sömuleiðis til viðtals í þáttunum. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi