Markmiðið að komast í úrslitakeppnina

Mynd: RÚV / RÚV

Markmiðið að komast í úrslitakeppnina

25.05.2020 - 20:30
Spánverjinn Francisco Garcia er nýr þjálfari kvennaliðs KR í körfubolta en hann tekur við liðinu að landsliðsþjálfaranum Benedikt Guðmundssyni sem sagði upp hjá Vesturbæjarliðinu nýverið. Hann kemur til KR frá Borgarnesi.

Garcia hefur mikla reynslu af þjálfun félagsliða á Spáni, í Danmörku og Finnlandi auk þess að hafa stýrt yngri landsliðum Spánar og kvennalandsliði Indlands. Hann snýr nú aftur í meistaraflokksþjálfun eftir að hafa verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Skallagrími síðasta hálfa árið.

„Fyrir fimm dögum eða svo hringdi formaðurinn [Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR] í mig og við náðum samkomulagi á um það bil einum sólarhring. Hann útskýrði fyrir mér hugmyndir félagsins og markmið sem mér leist vel á. Það var því auðvelt að komast að samkomulagi.“ segir Garcia.

En hver eru þá markmiðin hjá liðinu fyrir næsta vetur?

„Formaðurinn sagði mér að markmiðin væru að komast í úrslitakeppnina. Við erum með góðan hóp íslenskra og uppalinna leikmanna og semjum við líklega við tvo erlenda leikmenn og búum til samkeppnishæfan leikmannahóp. Svo sýnir staðan í deildinni hvar við lendum.“ segir Garcia.

Ummæli Garcia má sjá í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Körfubolti

„Vildum bara fá smá vinnufrið“

Körfubolti

„Þeir eru hundgamlir sko“

Körfubolti

Darri Freyr tekinn við KR

Körfubolti

„Gekk illa að fá svör frá KR“