„Ákveðin hætta á því að það dragi úr gegnsæi“

Mynd: Aðsend mynd / Lögreglan
Það hvernig stjórnvöld hafa tekist á við COVID-faraldurinn hefur verið eins og kennslustund í stefnumótun. Þetta segir Kristján Vigfússon, aðjúnkt við viðskiptadeild HR, sem hefur sérhæft sig í stefnumótun. Hann segir að það hafi verið rétt ákvörðun að hafa sérfræðingana í forgrunni en að nú þegar úrlausnarefnin eru orðin pólitískari og álitamálin fleiri reyni á að viðhalda gagnsæi.

„Þetta er búið að vera eins og kennslustund í stefnumótun að fylgjast með þessu og þetta hefur komið mér á óvart, ég held bara að kerfin okkar séu sterkari en okkur hefur grunað,“ segir Kristján. Þetta skrifist ekki endilega bara íslensku vertíðarstemmninguna þar sem allir standa saman þegar á reynir. Kerfin virðist bara hafa meiri sveigjanleika og þol en margan grunaði. 

Krafðist mikils skipulags

Kristján segir að COVID-krísan sé bæði stór og umfangsmikil, að taka á henni hafi krafist mikils og skýrs skipulags. Fyrsta skrefið í allri stefnumótunarvinnu sé að stofna stýrihóp. „Einhverjir sem þurfa að geta tekið ákvarðanir, það er gert og hann er mjög skipulega og vandlega saman settur; Almannavarnir, lögreglan, sóttvarnalæknir, landlæknisembættið og landlæknir. Hlutverkið var skýrt, tilgangurinn með hópnum, hvernig ákvarðanir voru teknar frá hópnum til heilbrigðisráðherra , forsætisráðherra og fleiri. Aðrir ferlar, hvernig þetta hríslaðist niður í heilbrigðiskerfið, stofnanirnar okkar, sveitarfélögin og svo framvegis virðist hafa verið mjög skipulagt líka og gott samstarf milli allra aðila.“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Kristján Vigfússon.

 

Áhætta að tefla sérfræðingunum fram

Í hruninu voru haldnir upplýsingafundir þar sem stjórnmálamennirnir komu fram. Kristján segir það áfall hafa verið annars eðlis, þjóðin sundruð og sárið djúpt. Nú er óvinurinn utanaðkomandi veira. 

Kristján segir að bæði stjórnmálamennirnir og sérfræðingarnir virðist hafa verið búnir að hugsa hvernig ætti að bregðast við, stjórnmálafræðingar hafi lært af viðbrögðum við fyrri krísum, hruninu til dæmis, og sérfræðingarnir litið til fyrri faraldra. Kristján segir að stjórnvöld hafi tekið áhættu með því að tefla sérfræðingunum fram. „Ég held að sú áhætta hafi verið minni en að stjórnmálamennirnir væru í frontinum á þessu öllu saman vegna þess að sérfræðingarnir vita hvað þeir eru að tala um og þeim hefur tekist á undraverðum tíma að koma skýrum skilaboðum á framfæri, þjóðin hefur trúað á þá og treyst því sem þeir segja og þar með eignast eignarhald í stefnunni og framkvæmdinni, því einstaklingarnir og hóparnir og allir úti í þjóðfélaginu hafa þurft að framkvæma með stofnunum. Það hefur verið gagnsæi í allri upplýsingamiðlun.“

Daglegir upplýsingafundir afrek

Það hafi verið flókið og erfitt verkefni, í raun afrek, að halda daglega upplýsingafundi en það hafi borið árangur. Fljótlega var stór hluti þjóðarinnar með helstu hugtök faraldursfræðinnar á takteinum. Það kom fyrir að eitthvað skolaðist til, einhverjir héldu um tíma að það væri markmið stjórnvalda að mynda hér hjarðónæmi,  en það var leiðrétt. Kristján hrósar líka hópnum fyrir að hafa haldið fólki upplýstu um næstu skref, jafnvel þó lægju ekki alveg fyrir, fólk vissi alltaf nokkurn veginn í hvað stefndi. 

Hættir til að segja einhverja vitleysu

Kristján segir að stjórnvöld hefðu vel getað klúðrað þessu með því að taka faraldurinn ekki alvarlega. „Við sjáum lönd eins og Rússland, Brasilíu núna, Bandaríkin og Bretland, lönd sem tóku þetta ekki alvarlega og voru sein til verka ef svo má segja. Í þessum löndum hafa stjórnmálamenn verið að koma fram, tala um hlutina og tilkynna um þá. Það er oft ekki skýrt hvað á að gera, hvenær á að gera hvað, hvernig. Það hefur valdið miklum vandræðum auk þess sem stjórnmálamönnum hættir til að  lofa upp í ermina á sér, segja einhverja vitleysu vegna þess að þeir eru ekki sérfræðingar í þessum málaflokkum.“

Upplýsingafundirnir vettvangur fyrir kosningabaráttu

Víða hefur ríkt ákveðin upplýsingaóreiða. Í Bandaríkjunum hefur Donald Trump stundum teflt fram vísindamönnum, stundum ekki og þrýst á þá í beinni útsendingu. „Fauci og Deborah, Trump hefur verið að reyna að ýta þeim í ákveðnar áttir, það sjá það allir. Það hefur jafnvel verið tekist á í beinni útsendingu á fundunum, sem hefur verið ótrúlegt að sjá.“ 
Kristján telur að Trump hafi í raun séð upplýsingafundina um kórónuveiruna sem vettvang fyrir kosningabaráttu. Trump hefur ýjað að því að það gæti verið heppilegt að taka inn spritt, já og tekur malaríulyf sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við.

„Í svona áföllum sér í vírana í kerfunum okkar“

„Við sjáum það í svona stórum áföllum, eins og þessu sem við erum að ganga í gegnum núna, að ef kerfin okkar virka ekki, þá sér í vírana, við sjáum beint inn í þau og í gegnum þau, hvort þau virka fyrir almenning og svo framvegis. Við höfum til dæmis séð þetta í Bandaríkjunum núna.“ Þar sé rekið dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi - en það hafi ekki þjónað öllum almenningi. Fylkin hafi þurft að berjast um búnað, tækni og upplýsingar. Hið kapítalíska frelsi virðist að mati Kristjáns hafa komið í bakið á mönnum. Skandínavísku velferðarkerfin hafi aftur á móti flest staðist áraunina. 

Óhugsandi að hafa ráðherra ekki í framlínunni

Þrátt fyrir þetta hefur víða verið farsælt að hafa pólitíkusana í forgrunni. Það á til dæmis við í Noregi. Í Noregi hefur ríkisstjórnin staðið í fararbroddi. Þar ríkir víðtæk sátt um að aðgerðir stjórnvalda. Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Helgelands-sjúkrahússins í Norður-Noregi,  sagði í Morgunútvarpinu á Rás 1 í morgun að það væri óhugsandi í Noregi að sérfræðingarnir stæðu í eldlínunni. Sjálf hefur Erna Solberg, forsætisráðherra, sagt að stjórnvöld myndu aldrei leyfa sóttvarnalækni að stjórna aðgerðum, líkt og gert var í Svíþjóð. Í Svíþjóð er einmitt farið að kvarnast úr trausti almennings til sóttvarnalæknis, enda hefur sænska leiðin leitt til margfalt fleiri dauðsfalla en annars staðar á Norðurlöndunum. 

Sjá einnig: Gagnrýnir Tegnell og segir stefnu Svía byggða á sandi

Flóknari mynd og pólitískari úrlausnarefni

Hingað til hefur myndin verið frekar einföld, að okkur steðjar mikil ógn sem sérfræðingarnir þekkja betur en stjórnmálamennirnir, sérfræðingarnir hafa leitt okkur í gegnum þetta og útskýrt fyrir okkur, skilað tillögum sem stjórnmálamennirnir virðast hafa farið eftir í einu og öllu. Það hefur verið nokkuð skýrt hvenær ákvarðanir má rekja til álits sérfræðinga og hvenær stjórnvöld eru við stýrið. Nú, þegar faraldurinn er í rénun, er erfiðara að greina á milli þess hvort aðgerðir sem ráðist er í eru sóttvarnaaðgerðir eða efnahagslegar aðgerðir. Það hvernig landið verður opnað er þannig ekki bara sóttvarnamál heldur stórt efnahagsmál og læknar eru ekki á einu máli um hvort rétt sé að opna þann 15. júní.

Mikilvægt að tryggja gegnsæi áfram

Kristján segir að atvinnulífið vilji kannski meiri aðkomu að ákvarðanatökunni, að kannski séu átök á bak við tjöldin. Hann segir mikilvægt að það verði áfram skýrt hvaðan ákvarðanir stjórnmála hverju sinni eru sprottnar. „Það hefur verið gegnsæi í því hvernig ákvarðanir eru teknar og gegnsæi í öllu utanumhaldi. Nú er kannski ákveðin hætta á því, núna þegar við förum að opna, að það verði ekki eins mikið gegnsæi í því hvernig það er gert og hvernig það er ákveðið. Núna þurfa stjórnmálin kannski og þessi aðgerðahópur, þessi stóri stefnumótunarhópur, að upplýsa okkur um það hvernig ákvarðanir verða teknar í framhaldinu þannig að það sé þá líka ljóst hver ber ábyrgð á þeim. Við vitum þá bara hvernig við eigum að halda áfram því hópurinn hefur einmitt verið svo góður í því að leiða okkur áfram. Gefa í skyn í lok funda að þau séu farin að hugsa að þessu og þessu án þess að það hafi verið fullkomlega útfært. Stundum var það ekki hægt því óvissan var svo mikil með framtíðina. Það hefur alltaf verið gefið í skyn hvert við værum að fara næst því ef við fáum ekki að vita hvert við erum að fara næst þá verða til sögur og óöryggi, þegar fólk er í upplýsingamyrkri, það getur verið hættulegt.“ 

Hann segir að skilin þurfi að vera skýr, eigi sérfræðinganálgunin að virka áfram, ljóst hvenær ákvarðanir byggja á pólitík og hvenær á vísindum. „Ég held það sé best fyrir alla, fyrir þríeykið, stjórnvöld og almenning. Það er aðeins farið að bera á þessu, að sitt sýnist hverjum og kannski ekki alveg ljóst hvaða breytingar eru gerðar af ráðherra eða inni í ráðuneytunum eða af pólitísku hliðinni þegar tillögur fara frá þríeykinu.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi