Vilja að lög um Hong Kong taki þegar gildi

24.05.2020 - 23:53
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epaselect epa08440401 Tear gas is seen in the background as police try to disperse protesters during a rally against the implementation of a new national security law in Causeway Bay, Hong Kong, China, 24 May 2020. Beijing unveiled a resolution at the opening of its annual legislative sessions that will bypass Hong Kong's legislature to outlaw acts of secession, subversion and terrorism in Hong Kong.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Peking segja nauðsynlegt að ný öryggislög varðandi Hong Kong taki gildi án tafar. Samþykkt laganna varð kveikjan að miklum mótmælum í héraðinu um helgina. Lýðræðissinnar í Hong Kong óttast að lögin skerði frelsi þeirra og réttindi.

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, sagði mikilvægt að lög gegn uppreisnaráróðri taki gildi sem allra fyrst til þess að koma í veg fyrir mótmæli gegn stjórnvöldum. Beindi hann orðum sínum þar að mótmælum lýðræðissinna í Hong Kong sem hafa staðið yfir í um ár. Lögin kveða á um bann við niðurrifsstarfsemi, andstöðu við sameiningu og erlend afskipti af Hong Kong. Lögin hafa verið gagnrýnd fyrir að fara gegn „eitt ríki, tvö kerfi" stefnuna sem vera á við lýði í Hong Kong til ársins 2047, samkvæmt samkomulagi Breta og Kínverja frá 1997. 

Þúsundir hópuðust út á götur í Hong Kong í morgun til þess að mótmæla lögunum. Óeirðarlögregla mætti þeim með táragasi. Bandaríkjastjórn hefur þegar mótmælt lögunum. Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, sagði þau mögulega geta leitt til viðskiptaþvingana af hálfu Bandaríkjanna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi