Gagnrýnir Tegnell og segir stefnu Svía byggða á sandi

24.05.2020 - 15:14
epa08434080 State epidemiologist Anders Tegnell of the Public Health Agency of Sweden addresses a news conference providing his daily update to the media and general public on the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus, in Stockholm, Sweden, 20 May 2020.  EPA-EFE/ANDERS WIKLUND *** SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Nærri fjögur þúsund eru látnir af völdum COVID-19 sjúkdómsins í Svíþjóð. Sex andlát voru staðfest síðasta sólarhringinn sem er talsverð fækkun frá deginum áður þegar 67 létust. Þennan mikla mun má mögulega rekja til þess að nú er helgi. Annika Linde, fyrrverandi sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segir draum sænskra yfirvalda um að vernda eldra fólk án þess að grípa til róttækra aðgerða hafa verið byggðan á sandi. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svía, segir að landið sé í „hræðilegri stöðu“.

Sænsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir það hvernig þau hafa tekist á við kórónuveirufaraldurinn. 

Á meðan yfirvöld í öðrum löndum Evrópu hafa gripið til útgöngubanns og lokað skólum hafa Svíar reynt að láta lífið ganga sinn vanagang; líkamsræktarstöðvum, veitingastöðum og ölstofum hefur til að mynda verið leyft að hafa opið og áhersla verið lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og meðvitund fólks. Samkomubann hefur engu að síður verið bundið við fimmtíu.

Samkvæmt nýjustu tölum hafa fjögur þúsund látist af völdum kórónuveirunnar í Svíþjóð. Til samanburðar má nefna að 562 hafa dáið í Danmörku og tíu hér á landi.

Annika Linde, fyrrverandi sóttvarnalæknir Svía, hefur síðustu daga gagnrýnt stefnu eftirmanns síns, Anders Tegnell. Í viðtali við breska blaðið Observer segir hún það hafa verið rangt af Svíum að gripa ekki til harðari aðgerða. „Við hefðum þurft meiri tíma til að undirbúa okkur. Ef við hefðum gripið til aðgerða eins og aðrar þjóðir hefði það gefið okkur tækifæri til að sjá hvað þyrfti að gera til að vernda viðkvæma hópa.“

Linde segir að þegar Tegnell hafi talað um að fletja út kúrfuna og vernda eldri borgara hafi hún talið að Svíþjóð næði upp hjarðónæmi fyrr en seinna. „Og mér fannst þetta góð stefna.“  En stefnan hafi ekki gengið upp því Svíum hafi einfaldlega mistekist að vernda viðkvæma hópa. „Stefnan var draumur sem reyndist ekki eiga sér neina stoð í raunveruleikanum.“

Í umfjöllun Observer kemur fram að aðgerðir stjórnvalda njóti enn mikils stuðnings hjá almenningi, sænskum fjölmiðlum og stjórnmálamönnum. Það er aðeins lítill  hópur vísindamanna sem hefur stigið fram og gagnrýnt hana opinberlega. Ummæli Linde síðustu daga marki hins vegar tímamót; hún sé sú fyrsta úr opinbera geiranum til að lýsa efasemdum sínum um þá vegferð sem Svíar eru á.

Observer vitnar í viðtal SVT við Tegnell þar sem hann viðurkennir að Svíþjóð sé í hræðilegri stöðu. Hann vísar því þó á bug að harðar aðgerðir eins og útgöngubann hefðu komið að einhverju gagni.  „Ég er efins um að við hefðum getað gert meira,“ segir Tegnell. Kórónuveirufaraldurinn hafi afhjúpað veikleika í sænska kerfinu og lengi hafi verið talað um gæðaskort hjá sænskum hjúkrunarheimilum. Þetta hafi nú komið á daginn.

Linde telur hins vegar að ábyrgðin liggi hjá yfirvöldum. Þau hafi ekki tekið mið af þeim áætlunum sem voru unnar til að bregðast við faröldrum eins og spænsku veikinni og svínaflensunni. „Það að við skyldum bera kórónuveiruna saman við venjulega inflúensu kann mögulega að hafa leitt til þess að við drógum rangar ályktanir í upphafi,“ segir Linde. „Mál hefðu kannski þróast með öðrum hætti i ef við hefðum verið meðvitaðri um smithættuna frá þeim sem eru einkennalausir.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi