Börn hætt komin eftir neyslu hlaupbangsa með fíkniefnum

24.05.2020 - 11:20
MINOLTA DIGITAL CAMERA
 Mynd: mynd úr safni
13 og 14 ára gamlar stúlkur á Suðurnesjum voru fluttar meðvitunarlausar á sjúkrahús um helgina eftir að hafa borðað hlaupbangsa sem innihéldu kannabis og jafnvel fleiri efni. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Í fyrstu var talið að þetta væru veikindi en við sýnatöku kom í ljós að stúlkurnar höfðu innbyrt kannabis og morfín. Þær voru á sama stað fyrr um kvöldið og var boðið að fá sér hlaup. Í tilkynningu lögreglu segir að þær hafi ekki vitað hvað var í hlaupinu. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að þær höfðu fengið hlaupið frá unglingi, sá hafði fengið hlaupið frá eldri manni. „Við fórum og ræddum við þann sem lét stúlkurnar hafa hlaupið og var hann yfirheyrður varðandi málið,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

Í færslu lögreglunnar segir að aðgengi að fíkniefnum sé afar auðvelt og að það geti tekið aðeins nokkrar mínútur að verða sér úti um efni. Foreldrar krakkanna, ásamt barnavernd, vinni að því í sameiningu að aðstoða börn sín varðandi þessa reynslu. Unga manninum, sem varð sér úti um efnin hafi brugðið er hann sat fyrir framan rannsóknarlögreglumann og áttaði sig á alvarleika málsins. „Við viljum brýna fyrir foreldrum að ræða þetta við börnin ykkar og fræða þau um þessar hættur sem eru þarna úti,“ segir í færslunni. 

Auðvelt er að búa til hlaup sem þetta, segir lögreglan, og hægt er að steypa það í hvaða form sem er, hvort sem það eru hlaupbangsar, ormar eða. Hægt sé að setja mjög sterk lyf í hlaupið og þá þurfi ekki að spyrja að leikslokum, borði 13 ára gamalt barn slíkt hlaup. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi