Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Samherja-gjöf ekki áfellisdóm yfir kvótakerfinu

23.05.2020 - 14:20
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks. - Mynd: Skjáskot / RÚV
Virði hlutabréfanna sem helstu eigendur Samherja létu renna til barna sinna stingur mikið í augun, að mati Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks og formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþlingis. Hann segir að það megi þó ekki gleyma því að það gerist oft að eignir í sjávarútvegsfyrirtækjum séu færðar milli fólks og fyrirtækja. Hann telur að málið eitt og sér sé ekki áfellisdómur yfir kvótakerfinu.

Tilkynnt var á dögunum að fjórir aðaleigendur Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, hefðu framselt hlutabréf sín í fyrirtækinu til barna sinna. Þau fjögur áttu fyrir 86,5 prósenta hlut í fyrirtækinu en eiga eftir breytingarnar tvö prósent. Gjöf eigenda Samherja til barna sinna hefur verið gagnrýnd, þar á meðal á Alþingi, og sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, að framsalið endurspegli galla í kvótakerfinu.

Tölurnar „gríðarlega háar“

„Þetta tiltekna dæmi stingur auðvitað mikið í augun, sérstaklega vegna þess að við erum að tala um eitt af hundrað stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heimi og eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi og tölurnar verða gríðarlega háar,“ sagði Páll í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Einnig var rætt við Oddnýju Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar í þættinum. 

Hér má hlusta á þáttinn Vikulokin í heild sinni.

„En við skulum samt ekki, í þessu samhengi, gleyma því að þetta er auðvitað að gerast á hverjum degi, það er að segja að eignir í sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru með hlutdeild í aflanum, eru auðvitað að færast bæði á milli kynslóða í arfi, milli fyrirtækja, milli félaga,“ sagði Páll í Vikulokunum. Tölurnar í tilfelli Samherja séu óskaplega háar en að í smærra mæli séu sambærileg tilfærsla algeng. 

Telur kvótakerfið í grundvallaratriðum gott

„Ég ítreka að þetta stingur í augun en menn mega ekki blanda þessu saman við það að segja að þetta sé áfellisdómur yfir fiskveiðistjórnunarkerfinu,“ segir Páll sem telur að í öllum grundvallaratriðum sé kvótakerfið gott og geri það sem því sé ætlað og tryggi eftir því sem verða megi sjálfbæra og arðsama nýtingu á auðlindinni. „Það má ýmislegt laga í fiskveiðistjórnunarkerfinu og sjálfur hyggst ég beita mér fyrir því. En kerfið sjálft, í grundvallaratriðum, er gott.“

Auðurinn renni í vasa útgerðarmanna

Oddný benti á að auður eigenda Samherja hafi byggst á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. „Auðurinn rennur í vasa útgerðarmannanna og þaðan í vasa barnanna þeirra.“ Að hennar mati sé fiskveiðistjórnunarkerfið meingallað. Það hygli fáum og vinni gegn nýliðun.

Mynd með færslu
Oddný Harðardóttir, formaður Þingflokks Samfylkingarinnar.  Mynd:

Þá sé eftirlit í molum og litlar kröfur gerðar til þeirra sem nýti auðlindina. Hún telur að það þurfi auðlindaákvæði í stjórnarskrána. „Þetta mál og önnur undanfarið hafa dregið mjög skýrt fram að það er eitthvað að. Þetta kerfi er mannanna verk og við getum breytt því.“ 

Segir brýnt að samningar um auðlindina séu tímabundnir

Þorgerður Katrín segir að á þeim fjórum árum sem Viðreisn hafi starfað hafi aldrei tekist að ljúka við umbætur á kvótakerfinu. „Það er alltaf séð til þess, af ákveðnum flokkum og ákveðnum hagsmunahópum, að það starf sé alltaf truflað,“ segir hún. 

Mynd með færslu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.  Mynd: RÚV

Þorgerður telur að grunnur kerfisins sé góður en að það þurfi að auka gagnsæi þess. Nú liggi þó fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi lagt fram. Þorgerður telur að sátt náist ekki um kvótakerfið nema gerði verði tímabundnir samningar um afnot af auðlindinni. „Ekki þannig að fiskurinn verði varanlega í eigu og umsjón útgerðarmanna.“