Mætti til vinnu með COVID-19 og hitti 84 viðskiptavini

23.05.2020 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Engin Akyurt - Pexels
Hárgreiðslumeistari í Missouri-ríki í Bandaríkjunum var smitaður af COVID-19 og er talið að hann hafi mætt til vinnu í átta daga eftir að hafa smitast. Þar hitti hann fjölda viðskiptavina og vinnufélaga sem allir verða nú að láta kanna hvort þeir hafi smitast.

Viðskiptavinirnir voru 84 talsins og vinnufélagarnir sjö, að því er CNN greinir frá. Í fréttinni segir að málið sýni glöggt hverjar hætturnar séu þegar verið er að opna fyrirtæki á ný eftir nokkurra vikna lokanir sem gripið var til til að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar. Hárgreiðslustofunni hefur verið lokað tímabundið á meðan hún er sótthreinsuð.

Ekki liggur nákvæmlega ljóst fyrir hvenær hárgreiðslumeistarinn smitaðist en talið er að það hafi verið á ferðalagi. Hann mætti til vinnu 12. maí, nýkominn úr ferðalaginu, og fram á síðasta miðvikudag, 20. maí. Rakara- og hárgreiðslustofum í Missouri hefur heimilt að hafa opið síðan 4. maí.

Í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum í Springfield-Green sýslu segir að hárgreiðslumeistarinn og viðskiptavinirnir hafi verið með andlitsgrímur. Vonast sé eftir því að með grímunum hafi verið hægt að koma í veg fyrir smit.

Tæplega 12.000 smit hafa verið greind í Missouri og 600 hafa látist úr COVID-19 í ríkinu. Í Bandaríkjunum hafa yfir 96.000 látið lífið úr sjúkdómnum og smitin eru komin yfir 1,6 milljón.