Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögreglan í Tíról aflaði upplýsinga um 90 Íslendinga

23.05.2020 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV
Lögreglunni í Tíról í Austurríki var falið að að afla upplýsinga um þá níutíu Íslendinga sem höfðu dvalist í Ischgl frá miðjum febrúar til byrjun mars. Tveir Íslendingar skrifuðu yfirvöldum í Tíról og greindu frá því að þeir teldu yfirgnæfandi líkur á því að þeir hefðu smitast af COVID-19 í flugi frá München til Keflavíkur.

Þetta kemur fram í svörum Florian Kurzhaler, upplýsingafulltrúa Tíról-héraðsins, við fyrirspurn fréttastofu.

Málsókn yfirvofandi og frekari rannsókn í gangi

Stjórnvöld í Tíról og ráðamenn í austurríska skíðabænum Ishkel hafa verið sökuð um að hafa hunsað viðvaranir frá Íslandi um að kórónuveiran hefði stungið sér þar niður. Þau eru sögð að hafa tekið hagsmuni ferðaþjónustunnar fram yfir heilsu ferðamanna.

Yfirvofandi er hópmálsókn frá meira en fimm þúsund ferðamönnum og saksóknarinn í Innsbruck hefur fyrirskipað lögreglunni að rannsaka enn frekar hvort lög hafi verið brotin eftir að lögreglan skilaði af sér þúsund síðna skýrslu um viðbrögð yfirvalda.

Mótmæltu umfjöllun austurísks fjölmiðils

Yfirvöld í Tíról sendu frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem frétt austurríska blaðsins Profil var mótmælt en þar voru ráðamenn í Tíról og Ischgl bornir þungum sökum.  Ekki hefði verið farið að þeim fyrirmælum sem gefin höfðu verið út um hvernig ætti að bregðast við COVID-19 smiti.

Allt má þetta síðan rekja til spurningarinnar um hvort viðvörunum íslenskra yfirvalda um að Ischgl væri há-áhættusvæði hafi verið stungið undir stól. 

Fréttastofa fékk yfirlýsinguna senda og óskaði jafnframt eftir skýringum á nokkrum atriðum sem þar komu fram, meðal annars að farið hefði verið yfir heilsufar níutíu Íslendinga og að einhverjir úr hópi þeirra teldu sig hafa sýkst í flugi á leiðinni heim til Íslands. 

Sögðust halda að þeir hefðu smitast í flugi á leiðinni heim

Kurzhaler segir í svari til fréttastofu að minnst tveir Íslendingar hafi séð ástæðu til að skrifa yfirvöldum í Tíról. Þeir sögðust halda að þeir hefðu smitast af COVID-19 í flugi á leiðinni heim. Þeir hefðu ekki fundið fyrir einkennum fyrr en nokkrum dögum eftir að þeir komu heim frá Ischgl og síðar fengið staðfest að ferðamaður með kórónuveiruna hefði verið í sama flugi og þeir.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á blaðamannafundi í lok febrúar að smit í flugvél væri mjög sjaldgæft, smithættan væri í kringum tvær sætaraðir fyrir framan og aftan.

Tveir Íslendingar höfðu leitað til læknis

Kurzhaler staðfestir enn fremur að heilbrigðisyfirvöld í Tíról hafi falið lögreglunni að afla upplýsinga um þá níutíu Íslendinga sem höfðu dvalist í Ischgl frá miðjum febrúar til byrjun mars. Þær upplýsingar voru síðan nýttar til að athuga hvort einhver þeirra hefði leitað til læknis á austurríska skíðasvæðinu. Þeir reyndust tveir.

Kurzhaler segir að haft hafi verið samband við þá til athuga hvort það tengdist COVID-19 en svo hafi ekki verið; annar hafi slasast á skíðum en hinn fundið til einhvers svima.

Fyrstu skilaboð um smit í Austurríki send 3. mars

Fréttastofa fékk afhent skilaboð sem Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sendi í gegnum EWRS um kórónuveirusmit sem rakin voru til Ischgl. EWRS er kerfi sem Evrópuþjóðir nota til að deila upplýsingum um COVID-19. 

Strax 3. mars sendi sóttvarnalæknir skilaboð um að alls hefðu 16 greinst með COVID-19 á Íslandi. 9 hefðu verið á skíðum í Trentino á Ítalíu, þrír í Austurríki og fjórir bæði í Austurríki og Trentino. 

Á miðnætti 4. mars kom fram í skilaboðum frá Íslandi að 26 hefðu greinst hér á landi með kórónuveiruna. Öll smitin mætti rekja til tveggja skíðasvæða í Ölpunum; 18 höfðu verið á skíðum í Trentino á Ítalíu en 8 í Ischgl í Austurríki.

Vildu sannreyna hvort Íslendingarnir hefðu verið í Ischgl  

Daginn eftir óskuðu austurrísk yfirvöld eftir frekari upplýsingum. Þau vildu vita hvenær Íslendingarnir hefðu farið að sýna einkenni og á hvaða hótelum þeir hefðu verið og á hvaða tímabili þannig að hægt væri að ganga úr skugga um að þeir hefðu örugglega verið í Ischgl. Þessari beiðni var svarað síðar um kvöldið.

Sama dag hafði ferðamálastofa Ischgl samband og fékk upplýsingar um á hvaða hótelum Íslendingarnir hefðu gist.  Þess má geta að þennan dag bárust einnig sambærilegar óskir frá ítölskum yfirvöldum. Þann 5. mars var Ischgl síðan lýst há-áhættusvæði og öllum sem þaðan komu var gert að fara í tveggja vikna sóttkví.