Kappnóg af drama, ástríðu og venjulegu kynlífi

NORMAL PEOPLE
 Mynd: BBC/HULU

Kappnóg af drama, ástríðu og venjulegu kynlífi

23.05.2020 - 15:28

Höfundar

Þættirnir Normal People, sem byggjast á samnefndri skáldsögu írska rithöfundarins Sally Rooney, hafa hlotið talsverða athygli áhorfenda víðs vegar um heim, meðal annars fyrir óvenju margar og langar kynlífssenur.

Katrín Guðmundsdóttir skrifar:

Írska sjónvarpsþáttaröðin Normal People, sem var nýlega gerð aðgengileg í Sjónvarpi Símans, hefur á skömmum tíma hlotið talsverða athygli áhorfenda víðs vegar um heim, meðal annars fyrir óvenju margar og langar kynlífssenur en þættirnir hafa að geyma alls 41 mínútu af kynlífi í ramma, sem verður að teljast ansi mikið miðað við sex klukkustunda langa seríu.

Þættirnir hafa ekki síður verið lofaðir fyrir að halda tryggð við samnefnda skáldsögu eftir metsöluhöfundinn Sally Rooney, sem hlaut jafnframt góðan orðstír gagnrýnenda á sínum tíma fyrir hráa og tilgerðarlausa ástarsögu sína. Og þótt einhverjum kunni að þykja aðlögunin sykra um of aðalpersónurnar, ungmennin Marianne og Connell, sem þóttu svo merkilega marglaga og óræðar í bók Rooney, skera þættirnir sig engu að síður úr úrvali sambærilegs sjónvarpsefnis á markaðnum í dag.

Normal People inniheldur vissulega kappnóg af drama, ástríðu, svikum, þrá og örvæntingu; því tilfinningalega tilstandi sem við sækjumst venjulega eftir í þáttum af þessu tagi en þar sem framleiðslan er sjálfstæð og ekki knúin markaðsöflum handan Atlantshafsins er atburðarásin kannski ekki jafn áleitin og við eigum að venjast.

Titillinn er til marks um það en þarna eru bara venjulegir krakkar að glíma við venjulega hluti sem fylgja því að fullorðnast og það eina sem þau þrá er að finna sína hillu, falla inn í fjöldann og finnast þau tilheyra einhverju eða einhverjum sem samþykkir þau. Þættirnir eru því nokkuð áreiðanlegur vitnisburður um reynsluheim vestrænna ungmenna og í stað þess að kúffylla söguna af uppgerð og spennu eru eiginleikar kvikmyndamiðilsins notaðir til að afhjúpa snúið tilfinningalíf og ímyndarflækju aðalpersónanna.

Grundvöllur þroskasögu af þessu tagi er hlutaskipt frásögn og úrfelling í tíma en Normal People samanstendur af tólf þáttum sem er skipt upp í fjóra hluta, og stendur hver hluti fyrir ákveðið tímabil í sambandi þeirra Marianne og Connell.

Í fyrsta hlutanum kynnumst við persónunum í umhverfinu sem þau hafa alist upp í; smábænum Carricklea og tilbrigðalausa framhaldsskólanum sem þau ganga í þar. Í öðrum hluta skilja leiðir og þau yfirgefa bæði eina lífið sem þau hafa nokkurn tímann þekkt til að flytja til Dublinar og hefja þar háskólanám með tilheyrandi frelsi og sjálfstæði. Í þriðja hluta verða svo ákveðin þáttaskil þegar nýjabrumið fer af háskólalífinu og þau neyðast til að takast á við alvarlegri hliðar þess að vera fullorðin. Til þess að ítreka þessar breytingar tekur nýr leikstjóri við keflinu og leiðir persónurnar dýpra niður í sjálfsvitund sína. Með hverjum þættinum stækkar heimurinn og samhliða eykst tilvistarkreppan þegar taka þarf bæði ábyrgð og afdrifaríkar ákvarðanir. Í fjórða og síðasta hlutanum sigrast þau svo á þessum erfiðleikum með því að takast á við sársaukann sem fylgir því að kynnast sjálfum sér og þroskast sem sjálfstæðir einstaklingar.

Það væri ómögulegt að segja svona stóra og umfangsmikla sögu í sjónvarpsþáttum án þess að sleppa því að sýna megnið af henni. Úrfelling tíma er því mikilsráðandi þáttur í frásagnargerðinni, auk þess sem hún léttir mjög á henni í tilfinningalegum þunganum.

Sviðsmynd og kvikmyndataka er svo notuð sem verkfæri til þess að miðla bæði ástarsambandi og einstaklingsþroska sögupersóna – frá því að vera ráðavilltir unglingar yfir í að vera fullorðið fólk með stað og stefnu í lífinu.

Í fyrsta hlutanum er til dæmis litanotkun sviðsmyndarinnar áberandi, þar sem blár og fleiri kaldir tónar eru notaðir til þess að ýta undir tómleika, innilokunarkennd og endalausa bið eftir að lífið sjálft byrji. Einkennislitur skólans er blár, herbergið hans Connells sömuleiðis og í rauninni er flest allt sem viðkemur lífinu í Carricklea blátt. Þegar annar hluti hefst umbreytist svo öll sviðsmyndin snarlega og blái liturinn víkur fyrir alls konar litum og áferð sem er til marks um annars vegar fjölbreytt og einstaklingsmiðað háskólalífið og hins vegar það stóra þroskastökk sem persónurnar taka á þessu stutta tímabili.

Þá má jafnframt lesa tilfinningalíf Marianne á litavali fatanna sem hún klæðist en skólabúningurinn í fyrsta hlutanum er blár eins og einhæft umhverfið, hún fer í rauða peysu, lit ástríðu og þrár, þegar hún verður ástfangin af Connell og þegar erfiðleikar steðja að í seinni hluta þáttaraðarinnar verða svartar flíkur gjarnan fyrir valinu sem draga fram þunglyndi hennar.

Eins er kvikmyndatakan notuð til að gera grein fyrir bæði ytri aðstæðum og innra lífi þeirra Marianne og Connell. Í fyrsta hlutanum er Marianne til að mynda oftast ein í ramma á meðan Connell er umvafinn vinum og kunningjum sem er lýsandi fyrir félagslega stöðu þeirra á þeim tímapunkti í sögunni, enda er Connell vinsæll og vel liðinn í Carricklea en Marianne utangarðs. Þegar annar hluti hefst snúast aftur á móti hlutskiptin og sömuleiðis niðurskipan þeirra í römmunum. Connell á þá í basli með að kynnast nýju fólki og er því mest megnis einn í mynd á meðan Marianne blómstrar, umkringd nýja vinahópnum sínum.

Tökustíllinn er mínímalískur og berskjaldar þær kenndir sem bærast í brjósti parsins. Lýsingin er einnig náttúruleg og miklar nærmyndir með mikilli djúpskerpu sýna okkur minnstu svipbrigði þeirra, svo sem vandræðagotur, störur og hik sem eru meðal annars til marks um þrá, eftirvæntingu og efa, allt eftir því hvar sambandið stendur hverju sinni. Þetta stílbragð er eitt helsta kennimerki þáttanna og mögulega ástæðan fyrir velgengni þeirra, enda er myndavélinni; séreinkenni miðilsins, alfarið treyst fyrir framvindu sögunnar í stað þess að mata áhorfendur á upplýsingum í formi atburða og samtala.

Þetta er einnig – og enn fremur – ástæðan fyrir því að það gengur yfirhöfuð upp að hafa jafn mikið af kynlífssenum í þáttaröðinni og raun ber vitni. Því það er jú mjög mikið af þeim en þær eru ekki endilega yfirgengilega kynæsandi eða þvingaðar ef út í það er farið. Lýsingin er ekki deyfð, enginn er rifinn úr fötunum og ný lostafull popplög magnast ekki upp á hljóðrásinni. Þvert á móti eru senurnar langar og hráar, og meira að segja svolítið vandræðalegar á köflum eins og kynlíf getur verið, sérstaklega til að byrja með. Það getur verið varasamt að skrifa kynlífssenur inn í kvikmyndahandrit þar sem þeim er gjarnan úthúðað fyrir að laða áhorfendur að skjánum á fölskum forsendum.

Við vitum öll að kynlíf selur en ég er ekki viss um að það sé endilega það sem selur Normal People. Að mínu mati eru senurnar mikilvægasta birtingarmynd sjálfsvitundar þeirra Marianne og Connell. Þær eru nauðsynleg undirstaða fyrir bæði tengslamyndun þeirra við hvort annað og eigin ímynd og sýna áhorfendum nánd sem ekki hefði verið hægt að ná fram með neinum öðrum hætti.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hitamælir á eigin kynslóð

Bókmenntir

Okkar á milli - Sally Rooney

Bókmenntir

Ný kynslóð írskra bókmennta