Ákærður í tólf ára gömlu nauðgunarmáli

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir nauðgun á hótelherbergi sem átti sér stað fyrir tólf árum. Konan krefst sex milljóna króna í miskabætur og gerir auk þess kröfu um að dæmt verði um bótaskyldu á grundvelli skaðabótalaga vegna þess tjóns sem hún varð fyrir vegna brotanna sem hún sakar manninn um.

Í ákærunni er átökum milli mannsins og konunnar lýst.

Hann er sagður hafa kastað sér á hana þar sem hún lá í rúmi sínu og haldið henni fastri.

Þegar hún féll í gólfið í átökunum aftraði hann henni að standa á fætur með því að grípa í fótlegg hennar. Hann setti síðan hnéið í bringu hennar og eftir að hún náði að skríða upp í rúm kom maðurinn á eftir henni og lagðist ofan á hana. Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru ekki meira en tvö ár liðin síðan málið var kært til lögreglu. Kynferðisbrot eins og nauðgun fyrnast eftir fimmtán ár.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV