Þriðji maðurinn handtekinn í máli Arbery

22.05.2020 - 06:25
epa08410751 People gather at the small memorial at the site of the shooting death of unarmed black jogger Ahmaud Arbery in the Satilla Shores subdivision of Brunswick, Georgia, USA, 08 May 2020. The Georgia Bureau of Investigation arrested Travis McMichael and his father, Gregory McMichael for the murder of Arbery.  A video that emerged of Arbery's confrontation with the armed father and son on 23 February 2020 sparked renewed interest and outrage of the slaying in the South Georgia city.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA
Þriðji maðurinn var handtekinn í gær í tengslum við morðið á Ahmaud Arbery í Georgíuríki Bandaríkjanna í febrúar. William Bryan er ákærður fyrir morð og tilraun til frelsissviptingar. Engar frekari skýringar voru gefnar á ákærunni, en boðað hefur verið til blaðamannafundar vegna málsins í dag.

Bryan tók myndbandið af Arbery, þar sem hann sést skokka í íbúðahverfi í Brunswick. Þar lendir hann í áflogum við tvo menn, feðga, og annar þeirra skýtur hann til bana. Feðgarnir, Gregory og Travis McMichael og  voru handteknir fyrir tveimur vikum, rúmlega tveimur mánuðum eftir atvikið. Tveir dagar liðu frá því að myndbandið var birt þar til feðgarnir voru handteknir.

Samkvæmt lögregluskýrslum frá því í febrúar tjáði Gregory McMichael lögreglu að feðgarnir hafi haldið að Arbery væri innbrotsþjófur á flótta eftir innbrot í hverfinu. Þeir hafi tekið upp byssur sínar og elt hann uppi. Fjölskylda Arbery segir hann einfaldlega hafa verið úti að skokka. Ríkissaksóknari Georgíu hefur beðið dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna um að rannsaka skotárásina.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV