Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sagði einkaskilaboð hafa verið notuð í uppsögn

22.05.2020 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Jason Howle - flickr
Persónuvernd telur sig ekki geta skorið úr um hvort yfirmaður fyrirtækis hafi brotið persónuverndarlög en hann var sakaður um að hafa notað einkaskilaboð starfsmanns til að segja honum upp störfum. Persónuvernd segir orð standa gegn orði.

Starfsmaðurinn kvartaði til Persónuverndar í byrjun mars á síðasta ári. Þar greindi hann frá því að skilaboð sem hann hefði sent öðrum starfsmanni hefðu verið skoðuð og mynduð af ótilgreindum starfsmanni.  Yfirmaðurinn hefði síðan tekið við þessum skjáskotum og notað þau til að segja starfsmanninum upp störfum.

Í kvörtun starfsmannsins kemur fram að skilaboðin hafi varðað aðra starfsmenn.  Þau hafi verið gömul og því ljóst að samtalið hafi verið skoðað vandlega auk þess sem skilaboðin hafi ekki blasað við þeim starfsmönnum sem höfðu aðgang að starfstöðinni. Þá sagði hann að yfirmaðurinn hefði lesið skilaboðin orðrétt af síma sínum á fundi með þeim sem fékk skilaboðin.   

Yfirmaðurinn sagði að viðkomandi starfsmaður hefði notað tölvu til að senda öðrum starfsmanni einkaskilaboð. Tölvan væri á opnu svæði þar sem væri talsverður umgangur.  Starfsmaðurinn hefði skilið tölvuna eftir ólæsta og skilaboðin því verið sýnileg þeim sem áttu leið um.  

Yfirmaðurinn sagði aðra starfsmenn fyrirtækisins hafa kvartað undan skilaboðunum sem hafi fjallað á ofbeldisfullan og meiðandi hátt um tiltekna starfsmenn.  Hann hafnaði því að hafa fengið afrit af umræddum skilaboðum og sagði engin önnur gögn til um málið

Persónuvernd segist í úrskurði sínum ekki geta tekið afstöðu til þess hvort yfirmaðurinn hafi brotið persónuverndarlög. Orð standi gegn orði hvort hann hafi fengið afrit af umræddum skilaboðum eða ekki.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV