Lífið eftir slysið hófst á þriðju lifrinni

Mynd: Nýjar hendur - innan seilingar / .

Lífið eftir slysið hófst á þriðju lifrinni

21.05.2020 - 09:44

Höfundar

„Einn daginn fer ég í vinnuna kaldan janúarmorgun, og svo vakna ég tveimur mánuðum síðar,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson sem missti báða handleggi í slysi fyrir 22 árum og berst nú fyrir handaágræðslu. Guðmundur segir sögu sína í heimildarmyndinni Nýjar hendur sem er á dagskrá RÚV í kvöld.

Guðmundur Felix var ungur maður, rafeindavirki, giftur og með tvö ung börn,  þegar hann lenti í slysinu við viðgerð á háspennulínu árið 1998. Hann virðist hafa farið upp í rangan staur og snert línu sem straumur hafði ekki verið tekinn af. Guðmundur fellur niður úr staurnum átta metra og brotnar á þremur stöðum í hryggnum, brákast í hálsliðum, rifbeinin losnuðu frá hryggjarsúlunni og kviknaði í höndunum á honum. Hann segist ekki hafa komist til almennilegrar meðvitundar fyrr en þremur mánuðum eftir slysið.

„Mín leið til að díla við slysið fyrst eftir á var bara að víma mig,“ segir Guðmundur sem lá á spítala í 7-8 mánuði og var svo í endurhæfingu á Reykjalundi í 14 mánuði. „Þar hélt þetta partí bara áfram, ég lét eins og þetta hefði ekki gerst og var bara að skemmta mér, á einhverju fylliríi. Ég flyt aldrei heim aftur, sambandið sem ég var í þoldi þetta ekki og ég missti af uppeldi barnanna minna. Sú litla var þriggja mán aða og hún grét víst í tvö ár eftir slysið, skynjaði að það var ekki allt í lagi.“ Guðmundur endaði á því að flytja í bílskúr foreldra sinna þar sem hann hélt svallinu áfram.

Mynd með færslu
 Mynd: Nýjar hendur – innan seilinga

„Ég var reglulega lagður inn á sjúkrahús til að gefa mér næringu í æð vegna þess að ég nýtti ekki fæðuna því lifrin á mér var alveg ónýt. Ég var alveg eins og páskaungi ég var svo gulur.“ Hann var settur lista yfir líffæraþega og átti að græða í hann nýja lifur. „Ég held bara áfram mínu striki þangað til ég er kallaður til læknis og sagt það sé búið að taka mig af listanum vegna neyslunnar.“ Þá fer hann í meðferð og nær ágætisárangri og ári síðar er hann settur aftur á listann og grædd í hann ný lifur árið 2002. „Sem misheppnaðist og mánuði seinna fékk ég aðra. Þá fyrst byrjar lífið hjá mér eftir þetta slys, það tók mig bara öll þessi ár að vera tilbúinn að takast á við þetta.“

Guðmundur Felix Guðmundsson segir sögu sína í Nýjar hendur – innan seilingar sem er á dagskrá RÚV að kvöldi uppstigningardags klukkan 19.35.

Mynd með færslu
 Mynd: Nýjar hendur – innan seilinga
Guðmundur Felix þurfta að fara í lifrarígræðslu tvisvar sinnum í Danmörku árið 2002.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég stend mig enn að því að tala við pabba“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“

Menningarefni

„Þetta eru myndir sem ég sýni engum“

Sjónvarp

Veikindi litlu systur settu verkefnið í nýtt samhengi