Fátækum unglingum líður verr

21.05.2020 - 14:29
Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Fjárhagur foreldra hefur mikil áhrif á hvernig íslenskum unglingum líður. Þetta er á meðal helstu niðurstaðna alþjóðlegrar könnunar um heilsu og líðan ellefu, þrettán og fimmtán ára barna.

 

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir að íslenskir unglingar komi yfirleitt vel út úr samanburði við aðrar Evrópuþjóðir.

„Það er, eins og við vitum, minni vímuefnanotkun hérlendis, og það eru sterk tengsl við foreldra, vini, mjög sterk tengsl við skólann, þannig að flestu leyti standa krakkar hérlendis mjög vel.

Mjög hefur dregið úr unglingadrykkju og reykingum, og íslenskir krakkar eru í tíunda sæti yfir þær þjóðir sem hreyfa sig mest. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar, sem gerð var árið 2018 að undirlagi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Mestu slagsmálahundarnir

Þar kemur líka fram að slagsmál eru algengari hér en víða annars staðar, og íslenskar stelpur eru mestu slagsmálahundar Evrópu. 22% stelpna og 23% stráka í 6. bekk höfðu tekið þátt í þrennum eða fleiri slagsmálum á einu ári, og niðurstaðan var lítið skárri í 8. og 10. bekk. Þetta er mikil fjölgun frá fyrri könnun árið 2014, en Ársæll kveðst ekki hafa skýringar á henni.

Það kemur honum hinsvegar á óvart hvað unglingum frá tekjulágum heimilum líður mikið verr en öðrum, bæði líkamlega, andlega og félagslega.

„Efnahagsleg staða hefur gríðarleg áhrif á íslenska krakka. Maður vonaði alltaf að þetta stéttlausa íslenska samfélag væri eitthvað annað en draumur, en við sjáum að krakkar sem koma frá fjölskyldum sem hafa það verr fjárhagslega koma verr út á öllum þáttum," segir Ársæll.