Segir ákveðinn heiður að hafa flest tilfelli

20.05.2020 - 06:22
epa08432730 US President Donald J. Trump delivers remarks during a Cabinet meeting in the East Room at the White House in Washington, DC, USA, 19 May 2020.  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir það ákveðinn heiður að langflest tilfelli COVID-19 séu í Bandaríkjunum. Hann segir það sýna góðan árangur í sýnatöku yfirvalda. 

Trump greindi blaðamönnum í Hvíta húsinu frá þessu í gær. Hann sagði ástæðu þess að flest tilfelli hafi greinst í Bandaríkjunum vera þá að Bandaríkin hafi tekið langflest sýni allra ríkja. Hann sjái því einnig bjartar hliðar á því að svo margir hafi greinst í Bandaríkjunum. 

Nokkuð fjarri sanni

Yfir ein og hálf milljón manna hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 í Bandaríkjunum. Það eru um 4.700 tilfelli á hverja milljón íbúa í landinu. Bandaríkin hafa vissulega tekið fleiri sýni en nokkurt annað ríki, en ef miðað er við hverja milljón íbúa eru Bandaríkin fjarri toppnum. Sé hún mæld þannig hafa Bandaríkin tekið svipað mörg sýni og Þjóðverjar. Þar eru tilfellin hins vegar rúmlega helmingi færri á hverja milljón íbúa.

Hjá þeim ríkjum sem eru með næst flest tilfelli á eftir Bandaríkjunum hafa Rússar til að mynda tekið fleiri sýni á hverja milljón íbúa. Þar hafa nærri 300 þúsund greinst jákvæð, sem eru um tvö þúsund tilfelli á hverja milljón íbúa. Bretar hafa tekið álíka mörg sýni á hverja milljón íbúa og Bandaríkin, en þar eru um þúsund færri jákvæð sýni á hverja milljón íbúa. Norðan við Bandaríkin, í Kanada, virðist einnig sem útbreiðsla veirunnar sé mun minni. Þar hafa litlu færri sýni á hverja milljón íbúa verið tekin, en aðeins rétt rúmlega tvö þúsund hafa greinst jákvæð á hverja milljón íbúa. 

Sýnatakan hér á landi er sú næst mesta í heiminum miðað við höfðatölu samkvæmt hagtöluvefnum Worldometers. Aðeins frændur okkar Færeyingar hafa tekið fleiri sýni á hverja milljón íbúa.

Svar við ferðatakmörkunum til Brasilíu

Þessi ummæli Trumps komu eftir að hann var spurður hvort hann hafi hugsað sér að víkka út ferðabann til og frá Bandaríkjunum. Sérstaklega í ljósi mikillar fjölgunar tilfella í Brasilíu. Trump sagði Brasilíu eiga í ákveðnum vanda, og hann íhugi mögulega ferðabann til og frá landinu. Yfir 270 þúsund hafa greinst með kórónuveiruna í Brasilíu hingað til, og nærri 18 þúsund eru látnir. Líkur eru á að ástandið sé mun verra, þar sem sýnataka er af skornum skammti í landinu, eða innan við 10% af sýnatökum Bandaríkjanna sé miðað við hverja milljón íbúa.  

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV