Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grútarmengun ógnar æðarvarpi við Bíldudalsvog

20.05.2020 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Grútarmengun hefur verið við Bíldudalsvog í Arnarfirði síðustu daga. Mikið æðarvarp er í grennd við Bíldudal og ungum stafar talsverð ógn af grútnum þegar þeir leggja á haf út í fyrsta skipti.

Úlfar Thoroddsen hefur vaktað æðarvarpið frá mánaðamótum og reynt að halda frá ýmsum vargi, eins og minkum, tófum, og ránfuglum. Hann segir að frá því að hann fór að vakta varpið hafi hann orðið var við mikið af múkka í fjöruborðinu, sérstaklega á flóði, og greinilegt að þar sé mikið æti. Hann segir að það sé líklega vegna fiskeldis í Arnarfirði. 

„Það hefur einhver grútur væntanlega sloppið frá fiskeldinu hérna. Þetta var í upphafi eitthvað vandamál hjá þeim og síðan fóru þeir nú í það að laga og þetta minnkaði. Bara fyrri partinn í vetur virtist þetta vera orðið í fínu lagi en um það leyti sem ég fór að vera í kringum varpið upp úr mánaðamótum apríl maí að þá varð ég var við það að á flóðinu, sérstaklega á stórstreyminu, fór að birtast mikill múkki sem lagðist á svæðið og virtist vera í heilmiklu æti. Það ættu ekki að vera nema tveir til þrír múkkar í náttúrulegu æti á þessu svæði,“ segir Úlfar.

Mörg hundruð fýlar safnist nú saman og hafi mikið æti. Hann segir að múkkinn sé að sinna hreinsunarstarfi því oft er stillt á voginum og sjávarföllin nái ekki að hreinsa út úr honum. Grútur er lýsismengun og ef fuglar, og sérstsaklega ungar, lenda í grút klessist hann í fiðri þeirra og aftrar för þeirra og flugi. Á milli 750 og 800 kollur verpa við Bíldudalsvog ár hvert og einnig töluvert af gæsum og toppöndum, að sögn Úlfars.

Anton Helgason hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða segir í samtali við fréttastofu að ekki liggi fyrir hvað hafi ollið menguninni. Hann hafi sjálfur ekki farið á staðinn í dag, en hann hafi verið þarna í síðustu viku. Hann segir að hreinsibúnaður við fiskeldi Arnarlax í Arnarfirði sé í lagi og hann telji ólíklegt að mengunin sé til komin vegna hennar. Búið sé að taka sýni og niðurstöðurnar eigi eftir að varpa ljósi á orsökina. Úlfar telur að grúturinn sé úr eldinu.

„Ég tel það líklegt, það er ekkert annað sem kemur til greina. Ég veit ekki hvaðan það ætti annars að berast. Þá er eitthvað annað að gerast hérna úti á firðinum,“ segir Úlfar.