Barnapúður úr búðarhillum í Norður-Ameríku

20.05.2020 - 02:09
epa05179395 A container of Johnson's Baby powder, by multinational Johnson & Johnson, is pictured in Brisbane, Australia, 25 February 2016. According to reports, a court in Missouri, USA, has ordered talcum-powder-makers Johnson & Johnson to
 Mynd: EPA
Lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson tilkynnti í gær að sölu á barnapúðri fyrirtækisins verði hætt í Bandaríkjunum og Kanada. AFP fréttastofan greinir frá. Sala á púðrinu hefur farið minnkandi, bæði vegna breytts neyslumynsturs og vegna ásakana um að efni í púðrinu sé krabbameinsvaldandi. 

Fyrirtækið hefur ávallt neitað ásökunum um að púðrið innihaldi asbest. Þrátt fyrir það hafa forsvarsmenn þess þurft að mæta nokkur þúsund sinnum í dómssal vegna þeirra. Í yfirlýsingu fyrirtækisins í gær segir að það standi fast á því að varan sé örugg. Fyrirtækið ætli sér að verjast öllum dómsmálum af hörku, enda hafi öllum sektardómum verið snúið við í áfrýjun.

Johnson & Johnson segir púðrið vera meðal þeirra vara sem ákveðið var hætta að dreifa á Norður-Ameríkumarkaði á meðan forgangsvörum er dreift vegna kórónuveirufaraldursins. Alls hefur dreifingu á um 100 vörum verið hætt, segir í yfirlýsingunni. Eftirspurn eftir barnapúðri hafi verið í rénun undanfarið, bæði vegna breytinga á neysluhegðun og vegna misvísandi upplýsinga um öryggi vörunnar. Þær vörur sem enn eru í hillum verslana í Bandaríkjunum og Kanada verða þó áfram til sölu, segir í yfirlýsingunni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV