Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lög um stofnun endurupptökudóms samþykkt

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Frumvarp sem felur í sér stofnun endurupptökudóms var samþykkt á Alþingi síðdegis. Dómsmálaráðherra fagnaði því að frumvarpið væri að verða að lögum. Hún segir að með stofnun endurupptökudómstóls væru tekin af öll tvímæli um að dómsvaldið sé einvörðungu á hendi dómara, í samræmi við stjórnarskrá.

Í lögunum kemur fram að Endurupptökudómur sé sérdómstóll sem skeri úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. 

Frumvarpið var samþykkt með 43 atkvæðum. Níu greiddu ekki atkvæði. 

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrstur til að gera grein fyrir atkvæði sínu og sagðist samþykkja frumvarpið með þeim fyrirvara að hann hefði viljað sjá gjafsóknarmöguleika í málum sem snúið hafi verið við hjá Mannréttindadómstól Evrópu. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra  „Með stofnun endurupptökudómstóls verða tekin af öll tvímæli um að dómsvaldið sé að einvörðungu á hendi dómara í samræmi við stjórnarskrá. Það er alveg ljóst að meginreglan um þrískiptingu ríkisvaldsins er þar með fest í sessi og skilyrði um endurupptöku dómsmála einnig rýmkuð. En mikilvægasta er auðvitað að í þessu er talsverð réttarbót fyrir almenning í landinu. Ég þakka allsherjar- og menntamálanefnd aftur fyrir vinnuna sína.“ 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, greiddi atkvæði með frumvarpinu og sagði það mikla réttarfarsbót. Þó þyki henni miður að ekki verði leyfð gjafsókn í þessum málum. „Sem er mjög miður því um er að ræða mjög mikilvægt réttarfarsúrræði og mér þykir eiginlega alveg ömurlegt að við ætlum að undanskilja fátækasta fólkið frá því úrræði að geta leitað réttar síns hérna.“ 

Til þess að fá gjafsóknarleyfi þá megi einstaklingur ekki hafa meira en rétt rúmar 300 þúsund krónur í tekjur á mánuði og hjón rúmlega 400 þúsund krónur. „Ég hefði haldið að við gætum látið það skilyrði eitt duga í staðinn fyrir að útiloka algjörlega að fólk sem ekki hefur ráð á að leita réttar síns fyrir endurupptökudómstól geti gert það. Það þykir mér miður en ég styð málið að öðru leyti.“