
Helmingur síleska þingsins í sóttkví
[1/3] Buenas tardes. Les cuento que debido a mi relación regular con la comisión de Hacienda del Senado, a la que pertenece el Senador Jorge Pizarro, al final del día viernes me sometí a un test PCR por covid 19. Acto seguido, inicié una cuarentena preventiva.
— Ignacio Briones (@ignaciobriones_) May 17, 2020
Við lok síðustu viku fóru tuttugu síleskir þingmenn í sóttkví þegar þrír þingmenn reyndust smitaðir af kórónuveirunni. Ignacio Briones, fjármálaráðherra og Felipe Ward, starfsmannastjóri forsætisráðuneytisins, tilkynntu báðir á Twitter að þeir hafi fengið neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku. Hins vegar séu þeir áfram í úrvinnslusóttkví á meðan beðið er eftir annarri neikvæðri niðurstöðu til staðfestingar.
Gonzalo Blumel, innanríkisráðherra og Sebastian Sichel félagsmálaráðherra eru þá líka í sóttkví.
Smitaður þingmaður fór í ferð um landið
Rabihandranath Quinteros, varaforseti þingsins, olli reiði eftir að hafa ferðast um suðurhluta landsins á föstudag, rétt áður en hann greindist smitaður. Hann sýndi enginn einkenni COVID-19 þegar hann var á ferðalaginu. Engu að síður hafði verið grunur uppi um smit.
Myndbandsefni fréttamiðla þar í landi sýna Quinteros heilsa kollega sínum með kossi. Í sama myndbandi sést hann hósta og snerta minnst einn hljóðnema.
Á miðvikudag í síðustu viku jókst daglegur fjöldi smita í Síle um sextíu prósent. Þá höfðu sóttvarnaraðgerðir verið í gildi í landinu í um mánuð. Í síðustu viku var útgöngubann sett á í höfuðborginni Santíagó. Þar sem meira en áttatíu prósent smita landsins eru staðsett. Í Síle eru 46 þúsund smitaðir af COVID-19. 478 hafa látið lífið.