Umferð að færast í eðlilegt horf

18.05.2020 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er tekin að líkjast því sem var áður en samkomubann var sett á þann þrettánda mars síðastliðinn. Ökumenn á svæðinu hafa án efa ekki farið varhluta af því.

Þeim sem voru á ferðinni fækkaði jafnt og þétt fyrstu dagana og vikurnar enda áttu heimavinnandi íbúar höfuðborgarsvæðisins mun minna erindi út í umferðina en vanalega. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Fólki á ferð um borgina fækkaði þegar um 24% og það hlutfall fór upp í 38% þegar sam­komu­bannið var hert. Sú þróun hélt áfram jafnhliða því sem samkomubanninu vatt fram og í apríl var metsamdráttur milli ára í umferðinni. Auk þess bárust tíðindi af því að engir nýir ökumenn hefðu haldið út í umferðina.   

Nú er Eyjólfur tekinn að hressast enda er atvinnulífið að færast í eðlilegt horf. Í síðustu viku sýndu mælingar Vegagerðarinnar eingöngu 4% færri ökutæki á ferð en fyrir ári.  

Enn fara þó um 14% færri um Hafnarfjarðarveg en munurinn milli ára mældist aðeins 0,3% á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi.  

Eftir að slakað var á samkomubanni tók umferð þegar að rétta úr kútnum og um Reykjanesbraut fara nú nánast eins margir og fyrir upphaf kórónufaraldursins í mars.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi