Trump segist taka umdeilt malaríulyf

18.05.2020 - 21:45
epa08431009 US President Donald J. Trump reveals that he is taking Hydroxychloroquine prophylaxis against COVID-19 as he participates in a roundtable with Restaurant Executives and Industry Leaders in the State Dining Room, in the White House, Washington, DC, USA, 18 May 2020.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist hafa verið að taka malaríulyfið hydroxychloroquine undanfarið. Deilt hefur verið um virkni lyfsins meðal sérfræðinga, sem sumir hafa varað við neyslu þess.

Trump greindi frá notkun sinni á lyfinu á blaðamannafundinui í kvöld. Sú yfirlýsing þarf kannski ekki að koma mikið á óvart því Trump hefur verið óspar á mæla með notkun malaríulyfsins. 

„Ég byrjaði að taka þetta fyrir nokkrum vikum, ég fæ mikið af jákvæðum skilaboðum um lyfið. Ég tek eina töflu á dag,“ sagði Trump. Hann sagðist þó ekki vera smitaður af kórónaveirunni heldur taka lyfið í forvarnarskyni. Trump sagði sömuleiðis að það gæti komið á óvart hversu mörg taka lyfið í forvarnarskyni, meðal annars heilbrigiðisstarfsfólk. 

Skiptar skoðnanir hafa verið um notkun lyfsins við kórónuveirunni. Rick Bright, fyrrverandi yfirmaður lífeindarannsóknar- og þróunarstofnunar Bandaríkjanna, er einn þeirra sem hefur varað við notkun lyfsins, sem geti haft ýmsar aukaverkanir.

Þá hefur Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna sömuleiðis varað við því að hydroxychloroquine eða chloroquine, sé tekið án leiðbeininga frá læknum. Ekki sé búið að sanna virkni þess gegn kórónuveirunni og þó að lyfið geti verið hættulaust þeim sem eru heilbrigðir geti það verið skaðlegt fólki með undirliggjandi sjúkdóma. 

Lyfið hefur þó nokkuð víða verið gefið sjúklingum með Covid-19, meðal annars á smitsjúkdómadeild Landspítalans.