Óvenjuleg æfingaferð Valsmanna

Mynd: Hannes Þór Halldórsson / RÚV

Óvenjuleg æfingaferð Valsmanna

18.05.2020 - 08:00
„Nú er að fara að þjappa hópnum saman,“ segir Hannes Þór Halldórsson, markvörður karlaliðs Vals í fótbolta, en liðið fór í ævintýralega ferð innanlands um helgina.

Það styttist óðum í að fótboltinn fari að rúlla hér á landi á ný. Fyrstu leikir Íslandsmótsins fara fram um miðjan júní. Það hefur reynst snúið fyrir liðin að undirbúa sig fyrir átökin enda hefur COVID-19 sett allt úr skorðum. Mörg félög hafa ekki getað farið í hefðbundnar æfingaferðir líkt og venjan er en Valsmenn gerðu sitt til að þjappa hópnum saman fyrir komandi átök.

„Við komumst ekkert í æfingaferð frekar en nokkur önnur lið þannig að þá þurfti bara aðeins að hugsa út fyrir kassann. Þannig að við erum að fara núna í út í sveit í stuðhelgi; bara aðeins að losna frá þjálfurunum og hugsa um eitthvað annað en fótbolta,“ segir Hannes Þór og bætir við:

„Við erum búnir að æfa mikið upp á síðkastið þannig að þetta er bara partur af þessu. Og svo eins og spjalla við þig og svona er okkar leið að taka þátt í því að hvetja fólk til að ferðast innanlands og nýta alla þessa frábæru aðstöðu sem er búið að byggja upp á þessu landi.“ 

Svipmyndir úr skrautlegri ferð Valsmanna þar sem snjósleðaferð, reiðtúr og dýfingar koma við sögu má sjá að ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson tók sig vel út á hestbaki.