Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spá 13 prósenta atvinnuleysi í lok sumars

15.05.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagfræðideild Landsbanka spáir því að atvinnuleysi fari í þrettán prósent í lok sumars og fari ekki undir tíu prósentin aftur fyrr en á næsta ári. Í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá er gert ráð fyrir níu prósenta samdrætti í ár og að verðbólga fari í þrjú og hálft prósent undir lok árs en minnki síðan.

Samdráttur í íslensku efnahagslífi í ár verður níu prósent af landsframleiðslu, gangi þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans eftir. Bankinn spáir því að samdrátturinn verði snarpari nú en eftir að bankarnir féllu haustið 2008. Hins vegar er útlit fyrir að efnahagsbatinn verði skjótari. Þannig spáir bankinn fimm prósenta hagvexti á næsta ári og þriggja prósenta hagvexti árið 2022.

Mikið atvinnuleysi næstu árin

Skýrsluhöfundar spá því að atvinnuleysi nái hámarki í ágúst og september, að þá verði þrettán prósent fólks á vinnumarkaði án atvinnu. Sú spá byggir meðal annars á því að fólk sem var sagt upp í lok apríl fer flest á atvinnuleysisskrá í ágúst nema atvinnuástandið batni í millitíðinni. Að því búnu gera skýrsluhöfundar ráð fyrir að það dragi úr atvinnuleysi, sem fari í tíu prósent fyrir árslok. Samkvæmt þessu yrði atvinnuleysi 9,1 prósent að meðaltali í ár og spáin hljómar upp á sjö og sex prósenta atvinnuleysi næstu tvö árin.

Samkvæmt spánni fer verðbólga í 3,5 prósent undir árslok áður en hún lækkar aftur og nálgast 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans á næsta ári. Verðbólga var nokkrum sinnum í kringum 3,5 prósent síðasta vetur en hafði fram að því ekki orðið svo mikil frá því í árslok 2013. Landsbankinn spáir 2,6 prósenta verðbólgu á næsta og þarnæsta ári að meðaltali.

Ferðamenn úr 2,3 milljónum í hálfa milljón

Hagvöxtur síðustu ára hefur að stórum hluta byggt á ferðaþjónustu. Fyrir tveimur árum komu 2,3 milljónir ferðamanna til landsins og hafa þeir aldrei verið fleiri. Nú gerir Landsbankinn ráð fyrir að aðeins hálf milljón erlendra ferðamanna komi til landsins í ár. Þeim fjölgar þó hratt að mati skýrsluhöfunda, verða 1,2 milljónir á næsta ári og ein og hálf milljón 2022.  

Hvort tveggja inn- og útflutningur dregst verulega saman samkvæmt spánni, sem veldur því að viðskiptajöfnuður verður jákvæður samkvæmt spánni. Því er spáð að íbúðaverð standi í stað út árið og að stýrivextir verði lágir næstu árin.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV