Fimm skemmtilegar gönguleiðir fyrir byrjendur

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Fimm skemmtilegar gönguleiðir fyrir byrjendur

15.05.2020 - 11:47
Sumarið er komið og veðurspáin fyrir helgina er ekki af verri endanum. Fjallgöngur eru að verða sívinsælli, ekki bara fyrir eldri kynslóðina heldur líka fyrir þá sem halda að Laugavegurinn sé bara í miðbæ Reykjavíkur. Hér fyrir neðan eru fimm góðar gönguleiðir fyrir byrjendur.

Margir hafa saknað þess að mæta í líkamsræktarstöðvarnar til að fá sína hreyfingu þar. Það er þó margt annað sem hægt er að gera til að halda sér hressum og má þar nefna að fara út að hlaupa, skella sér í göngutúr, hjóla nokkra hringi og fara í fjallgöngur. Það þarf ekki að vera flókið að fara í skemmtilega göngu með góðum vinum og njóta náttúrunnar í leiðinni.
 
Hér fyrir neðan eru fimm skemmtilegar gönguleiðir fyrir byrjendur.

Úlfarsfell, Esjan og Helgarfell
Þessar gönguleiðir þarf nú vart að kynna. Af þessum þremur er Úlfarsfell lang þægilegast að ganga. Esjan er þó gífurlega skemmtileg og falleg ganga, hægt er að velja nokkrar leiðir til að fara upp að Steini, eftir því hve erfið og brött þú vilt að gangan sé. Það skemmir svo ekki fyrir að söngkonan Bríet samdi lag fyrr á árinu sem ber heitið Esjan, því er gráupplagt að taka upp símann setja mynd á samfélagsmiðla með þessu fallega lagi undir. Helgafell er svo virkilega skemmtilegt fell að fara á og stutt að fara úr bænum. Á toppnum er útsýnisskífa og þar má njóta margra fjalla eins og Valahnjúka og Húsfells.

Reynisfjall
Fjallið er í nágrenni við Vík í Mýrdal en góð og ansi skemmtileg leið liggur upp á fjallið frá þorpinu. Það tekur rúma tvo klukkutíma að keyra á Vík í Mýrdal svo þetta getur þess vegna verið skemmtileg dagsferð, ganga á Reynisfjall og kíkja svo í Reynisfjöru. Bara muna að passa sig á öldunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Reynisfjall - Google
Reynisfjall

Búrfell í Grímsnesi
Það tekur ekki nema einn og hálfan klukkutíma að keyra af höfuðborgarsvæðinu að Búrfelli. Við Búrfell er ein stærsta sumarhúsabyggð á landinu. Vegalengd göngunnar er 2.9 km. Fallegt útsýni er af fjallinu og á toppnum er kvos sem er forn gígur sem gaman er að skoða. 

Mynd með færslu
 Mynd: Búrfell - Google
Búrfell

Þorbjörn
Þorbjarnarfellið er staðsett norðan við Grindavík. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá, að sögn eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu sauðfé Grindvíkinga. Einnig er Reykjanesviti og Gunnuhver nálægt sem gaman er að ganga að og skoða.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorbjörn
Þorbjörn

Glymur
Glymur er næsthæsti foss landsins. Bílnum er lagt innst í Botnsdal en þaðan liggur stígur að fossinum. Þetta er mikil ævintýraferð. Á sumrin má finna trjábol og reipi til að komast yfir ána sem er á leiðinni að fossinum en einnig er hægt að vaða ána þegar lítið er í henni. Hér fyrir neðan má sjá hvernig gönguleiðin er að þessum fallega fossi.