Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tólf létust í fangaklefa lögreglu í Búrkína Fasó

14.05.2020 - 02:14
epa06582641 Security forces patrol in the streets of Ouagadougou in the aftermath of an alleged terrorist attacks, in the capital Ouagadougou, Burkina Faso, 05 March 2018. According to reports at least 28 people have been killed and dozens left wounded in the attacks on the French Embassy and miltary headquarters in Ouagadougou on 02 March.  EPA-EFE/LEGNAN KOULA
 Mynd: epa
Tólf manns sem höfðu setið í fangaklefa lögreglu í vesturhluta Búrkína Fasó í Afríku vegna grunsemda um tengsl við hryðjuverkastarfsemi fundust látnir í klefa sínum í gær.

AFP fréttastofan hefur eftir saksóknara í borginni Fada N'Gourma þar í landi að 25 voru teknir fastir á mánudag og að tólf úr þeim hópi létust nóttina eftir. 

Rannsókn fer nú fram á andlátunum. AFP hefur eftir heimildarmanni að köfnun sé möguleg dánarorsök, en einungis rannsókn geti leitt það í ljós að fullu. Þá segja heimildir AFP jafnframt að flestir fanganna hafi verið af þjóðarbrotinu Fula, sem hefur oft verið sakað um að eiga tengsl við hryðjuverkahópa öfga-Íslamista. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fangar finnast látnir í klefa lögreglu þar í landi. Í júlí í fyrra létust í klefa sínum ellefu fangar, sem höfðu verið sakaðir um eiturlyfjasmygl. Þá hafa öryggissveitir Búrkína Fasó oft verið sakaðar um illa meðferð gagnvart þjóðarbrotinu. Mannréttindasamtökin MDBHP þar í landi segja að kennari af Fula þjóðarbrotinu fannst látinn á lögreglustöð í höfuðborginni Ouagadougou í byrjun maí. Hann hafði verið handtekinn og sakaður um tengsl við hryðjuverkastarfsemi í lok apríl. Þá hafa minnst fjórir af sama þjóðarbroti horfið frá því í desember síðastliðnum, samkvæmt samtökunum. 

Mikill órói hefur verið í Búrkína Fasó um langt skeið. Herinn þar í landi segist hafa fellt tuttugu hryðjuverkamenn í dag, þriðjudag, í átökum í norðanverðu landinu. Átta hermenn létust einnig í átökunum.