
Tólf létust í fangaklefa lögreglu í Búrkína Fasó
AFP fréttastofan hefur eftir saksóknara í borginni Fada N'Gourma þar í landi að 25 voru teknir fastir á mánudag og að tólf úr þeim hópi létust nóttina eftir.
Rannsókn fer nú fram á andlátunum. AFP hefur eftir heimildarmanni að köfnun sé möguleg dánarorsök, en einungis rannsókn geti leitt það í ljós að fullu. Þá segja heimildir AFP jafnframt að flestir fanganna hafi verið af þjóðarbrotinu Fula, sem hefur oft verið sakað um að eiga tengsl við hryðjuverkahópa öfga-Íslamista.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fangar finnast látnir í klefa lögreglu þar í landi. Í júlí í fyrra létust í klefa sínum ellefu fangar, sem höfðu verið sakaðir um eiturlyfjasmygl. Þá hafa öryggissveitir Búrkína Fasó oft verið sakaðar um illa meðferð gagnvart þjóðarbrotinu. Mannréttindasamtökin MDBHP þar í landi segja að kennari af Fula þjóðarbrotinu fannst látinn á lögreglustöð í höfuðborginni Ouagadougou í byrjun maí. Hann hafði verið handtekinn og sakaður um tengsl við hryðjuverkastarfsemi í lok apríl. Þá hafa minnst fjórir af sama þjóðarbroti horfið frá því í desember síðastliðnum, samkvæmt samtökunum.
Mikill órói hefur verið í Búrkína Fasó um langt skeið. Herinn þar í landi segist hafa fellt tuttugu hryðjuverkamenn í dag, þriðjudag, í átökum í norðanverðu landinu. Átta hermenn létust einnig í átökunum.