
Stjórn Netanjahús og Gantz tekur við í dag
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í Ísrael í gær og fundaði með Gantz og Netanjahú um fyrirætlanir um að innlima landtökubyggðir á Vesturbakkanum. Samkvæmt sáttmála nýrrar Ísraelsstjórnar verður farið að huga að undirbúningi þess fyrsta júlí.
Samkvæmt fréttastofu Al Jazeera lagði Pompeo sérstaka áherslu á að aðgerðir Ísrael myndu stemma við stefnu Trump Bandaríkjaforseta um Miðausturlönd þar sem grænt ljós er gefið á innlimun landtökubyggðanna.
Þessi stefna hefur þótt ógna möguleikum á tveggja ríkja lausn á milli Ísrael og Palestínu, en Vesturbakkinn er í eigu Palestínumanna. Al Jazeera hefur eftir Saeb Erekat, aðalsamningamanni Palestínumanna, að Pompeo gerði enga tilraun til að hafa samband við Palestínu fyrir heimsóknina. Hann lýsti því þá að ríkisstjórn Trumps sé með þessu að jarða réttindi Palestínsku þjóðarinnar í samstarfi við Ísrael.
Landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum hafa verið dæmdar sem brot á alþjóðalögum í fjölmörgum ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem þær fara í bága við fjórða Genfarsáttmálann.