Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kortavelta orðin jafn mikil og fyrir faraldur

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Kortavelta íslenskra greiðslukorta er þegar orðin jafn mikil og hún var áður en samkomubannið vegna kórónuveirufaraldursins tók gildi 13. mars.

Íslendingar hættu að versla eins mikið og þeir gerðu þegar faraldurinn fór á skrið hér í byrjun mars og alveg fram undir páska varð kortaveltan sífellt minni. Fyrir páska tók kortaveltan kipp en hún hríðféll á ný yfir páskana.

 

Í frétt á vef stjórnarráðsins er sagt frá því að kortaveltan hafi orðið svipuð og í byrjun mars 6. maí.

„Kortavelta veitir góða vísbendingu um umsvif í verslun og þjónustu,“ segir á vef stjórnarráðsins. Þar er bent á að erlend kortavelta hér sé lítil sem engin enda hefur nær enginn ferðamaður verið hér á landi síðan faraldurinn greindist hér.

„Leiða má að því líkur að margir hafi frestað kaupum á vöru og þjónustu þangað til eftir að samkomubannið var rýmkað,“ segir í fréttinni.