Endurgreiða þeim sem eru óánægðir

14.05.2020 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
World Class endurgreiðir þeim sem eru óánægðir með hvernig líkamsræktarstöðin hagar innheimtu  á aðgangsgjöldum á meðan lokað er vegna heimsfaraldursins. Líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar í samkomubanninu en fá að opna 25. maí.

Björn Leifsson, eigandi World Class, segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi margir haft samband og lýst óánægju sinni og heimtað endurgreiðslu um 6.000 króna áskriftargjalds á mánuði. „Það eru ekki mjög margir óánægðir,“ segir hann.

3.500 sagt upp áskriftinni

Sá háttur hefur verið hafður á hjá World Class að frysta öll áskriftarkort á meðan stöðvarnar þurfa að vera lokaðar. Viðskiptavinum barst reikningur 15. mars fyrir aðgang í apríl en sundlaugum og líkamsræktarstöðvum var gert að loka frá og með 24. mars. Eigendur ótímabundinnar áskriftar fengu ekki reikning fyrir maí og ekki verður rukkað fyrir júní heldur, til að bæta upp fyrir reikninginn í apríl.

Annað gildir fyrir eigendur tímabundinna korta hjá World Class. Rukkað var fyrir apríl og maí. Neytendasamtökunum hafa borist fjöldi kvartana undan tilhögun World Class og Breki Karlsson, formaður samtakanna, hefur látið hafa eftir sér að ráðist sé að neytendum úr öllum áttum í faraldrinum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Björn gefur lítið fyrir gagnrýni Breka og neytenda. „Það er enginn rukkaður fyrir það sem þeir fá ekki að nota,“ segir Björn. „Það er auðvelt fyrir alla að segja upp, ef þeir vilja.“ Um 3.500 hafa þegar sagt upp áskriftarkortum í World Class á meðan faraldrinum hefur staðið að sögn Björns.

Breki er segir ánægjulegt að World Class skuli endurgreiða gjöldin. „Þetta er nú bara sigur fyrir okkur öll,“ segir Breki. „Við fögnum því að þeir séu að gera rétt við viðskiptavini sína.“

Sátt við það sem þau fá

Forsvarsmenn líkamsræktarstöðva – Björn þar á meðal fyrir hönd World Class – rituðu bréf til sóttvarnarlæknis í byrjun maí þar sem farið var fram á að stöðvarnar fengju að opna 18. maí, á sama tíma og sundlaugar. Þá var nýbúið að slaka á samkomubanninu og leyfa íþróttaæfingar fullorðinna. Ræktarþurfi notendur stöðvanna stóðu einnig fyrir undirskriftasöfnun þar sem þess sama var krafist.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir lýsti þeirri skoðun sinni að smithætta væri mun meiri í líkamsræktarstöðvum en í sundlaugum og rakti nokkrar ástæður fyrir því.

„Við erum bara sátt við það sem við fáum,“ segir Björn spurður hvað honum finnist í dag, þegar búið er að gefa út að World Class fái að opna viku á eftir sundlaugunum. Og bætir við: „Það þýðir ekkert að væla, það er ekkert hlustað á mann.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi