Útgöngubann í Venesúela framlengt um mánuð

13.05.2020 - 02:16
epa08324861 (FILE) - Venezuelan President Nicolas Maduro speaks during a press conference in Caracas, Venezuela, 12 March 2020 (reisuued 26 March 2020). US Attenorney General Barr on 26 March 2020 announced the US had charged president Maduro and other Venezuelan officials with crimes related to drug-trafficking.  EPA-EFE/Miguel Gutierrez
Nicolas Maduro. Mynd: EPA-EFE - EFE
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, tilkynnti í dag að útgöngubann þar í landi verði framlengt um mánuð vegna kórónuveirufaraldursins. Útgöngubann var sett þar á þrettánda mars og hefur þegar verið framlengt einu sinni. Jafnframt hefur bann á flugi til og frá landinu verið framlengt til tólfta júní, samkvæmt AFP fréttastofunni.

Maduro segir að 423 smit hafi greinst í Venesúela og tíu látist. Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, heldur því hins vegar fram að þær tölur séu stórlega vanmetnar. Dauðsföll séu mun fleiri í landinu þar sem heilbrigðiskerfið er bágstatt eftir áralanga efnahagskreppu.

Reglur útgöngubannsins fara fram á að fólk fari einungis út af heimili sínu til þess að sækja læknisaðstoð eða kaupa matvörur. Brot á reglunum hafa hins vegar átt sér stað og aukist, þá sérstaklega í höfuðborginni Karakas sem og í fátækustu hlutum Venesúela þar sem afkoma fólks veltur á gráa markaðinum. 

Milljónir hafa flúið bágstaddan efnahag landsins og eru þar viðvarandi verðbólga og lyfja- og matarskortur. Síðan faraldurinn hófst hefur skortur aukist, þá einkum á jarðefnaeldsneyti.