Tesla aftur í gang í trássi við yfirvöld

12.05.2020 - 05:49
epa08411202 (FILE) - A general view shows the Tesla Inc. main factory in Fremont, California, USA, 18 March 2020 (reissued 09 May 2020). Media reports state on 09 May 2020 that Tesla has been ordered by Alameda County to keep its main plant in the USA closed due to the coronavirus disease (COVID-19) pandemic. Authorities argued that restoring all daily activities too soon could risk in a rapid spike of new coronavirus cases. CEO Elon Musk aimed at reopening the company's factory in Fremont on 08 May 2020 but authorities said it did not meet the requirements for resuming production, media added. The plant has been closed down since 23 March.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri Tesla, tilkynnti á Twitter í gær að hann ætli að fara gegn skipunum heilbrigðisyfirvalda í norðanverðri Kaliforníu og hefja starfsemi að nýju í verksmiðjum fyrirtækisins. Hann kveðst sjálfur ætla að vera á framleiðslulínunni ásamt öðrum starfsmönnum. Ef yfirvöld ákveði að grípa inn í þá vilji hann að enginn annar en hann sjálfur verði handtekinn.

Musk er ítrekað búinn að hóta því að færa verksmiðju Tesla úr Alameda sýslu vegna tilmæla yfirvalda um að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Tesla fór í mál við sýsluna á laugardag og sagði skipun yfirvalda brjóta gegn stjórnarskrá Kaliforníu.

Sýslur stjórni sjálfar sínum sóttvarnarreglum

Musk er einkar gramur yfir því að aðgerðir yfirvalda í Alameda eru harðari en annars staðar í Kaliforníu. Ríkisstjórinn Gavin Newsom tilkynnti í síðustu viku að einhverjar verksmiðjur mættu hefja starfsemi að nýju. Hann gaf það jafnframt skýrt út að þær reglur sem hver sýsla setur hafi æðra gildi en tilmæli ríkisstjórans. 

Samkvæmt lögum í Kaliforníu geta þeir sem brjóta gegn sóttvarnarlögum átt yfir höfði sér dagsektir upp á þúsund dollara á dag, eða allt að 90 daga fangelsisvist. Talskona lögreglunnar í Fremont í Alameda sýslu sagði engan hafa verið handtekinn í borginni vegna brots á lögunum, en nokkrir verið sektaðir. 

Yfirvöld í Alameda greindu frá því í gær að þau vissu af starfsemi í verksmiðju Tesla. Forráðamenn fyrirtækisins hafa verið látnir vita að þeir megi það ekki fyrr en þeir hafa náð samkomulagi við yfirvöld í sýslunni. Málið er í vinnslu samkvæmt vinnulagi lögreglunnar, hefur Guardian eftir yfirlýsingu hennar. 
Verksmiðjan hefur verið lokuð síðan 23. mars. Um tíu þúsund starfsmenn vinna í verksmiðjunni. Að sögn Guardian var bíll í næstum hverju stæði fyrir utan verksmiðjuna snemma í gær, sem gæti þýtt að þar hafi verið hafist handa áður en Musk skrifaði færsluna á Twitter.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV