Óska álits á frumvarpi um breytingu á stjórnarskrá

12.05.2020 - 04:32
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Frumvarp um nýtt ákvæði í stjórnarskrá um íslenska tungu er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til 25. maí. Þar er kveðið á um að íslenska sé ríkismál Íslands sem ríkisvaldið skuli styðja og vernda. Að auki er kveðið á um að íslenskt táknmál sé tungumál þeira sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta, og ríkisvaldið styðji það og verndi einnig.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að ákvæðið gagnst fyrst og fremst við almenna stefnumörkun stjórnvalda, ákvarðanatöku og reglusetningu. Einnig við túlkun réttarheimilda og frekari lagasetningu er varðar íslenska tungu og íslenskt táknmál. Þegar eru í gildi ýmis almenn lög sem snúa að íslenskri tungu og íslensku táknmáli. Í greinargerðinni segir að Félag heyrnarlausra hafi lýst því að notendur táknmáls verði enn fyrir mismunun og takmörkunum á réttindum þrátt fyrir gildandi lög um stöðu táknmálsins. Það kallar því eftir að stjórnarskrárákvæði um stöðu íslensks táknmáls verði samþykkt, svo tryggja megi betur réttindi heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga. 

Einnig er tekið fram að frumvarpið dregur ekki úr réttindum minnihlutahópa eða þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku til þess að nota sitt tungumál. Réttur þeirra er hluti af mikilvægum mannréttindum þeirra, segir í greinargerðinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi