Tónleikarnir urðu mjög vinsælir og áttu sinn þátt í að festa Cobain og hljómsveit hans Nirvana á stjörnuhimininn. Tónleikarnir voru haldnir í New York í nóvember árið 1993, fimm mánuðum áður en Cobain fyrirfór sér.
Gítarinn sjálfur er af tegundinni Martin D-18E og var smíðaður árið 1959. Honum fylgir hörð taska ásamt blaði úr umslagi plötunnar Feel the Darkness með pönkhljómsveitinni Poison Idea. Þrír flugvallarlímmiðar eru á töskunni ásamt límmiða frá flugfélaginu Alaska Airlines. Þá eru nokkrar gítarneglur og gítarstrengir í töskunni.
Fleiri hlutir tengdir Cobain og Nirvana verða seldir á uppboðinu, sem fram fer á netinu 19. og 20. júní. Til að mynda Fender Stratocaster gítar sem Cobain notaði á tónleikaferðalaginu í kjölfar plötunnar In Utero árið 1994, og silfurlitaður bolur sem hann klæddist í myndbandinu við lagið Heart-Shaped Box af sömu plötu.
Í fyrra seldist peysan sem Cobain klæddist á órafmögnuðu tónleikunum fyrir 334 þúsund dollara, jafnvirði um 50 milljóna króna.