Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Funda með borgarstjóra um Fossvogsskóla

12.05.2020 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður og sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs munu síðar í vikunni funda með borgarstjóra um athugasemdir foreldra barna í Fossvogsskóla um úttekt á framkvæmdum þar. Fundinn sitja einnig fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs sem bera ábyrgð á viðhaldi húsnæðis borgarinnar. Þar verða einnig lagðar línur um hvernig samskiptum við foreldrafélag skólans verður háttað. Þetta segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.

Málefni Fossvogsskóla voru til umræðu á fundi skóla- og frístundaráðs í dag. Foreldrafélag skólans telur að borgaryfirvöld hafi ekki gert viðunandi prófanir til að ganga úr skugga um að engin mygla sé lengur í húsnæði skólans. Hafa foreldrarnir ráðið sér lögmann vegna svaraleysis borgarinnar í málinu.

Skúli segir að góð umræða hafi verið um málið frá öllum hliðum á fundinum í dag. Bæði hvað varðar framkvæmdirnar og úttekt á þeim, og áhyggjur og sjónarmið foreldrafélagsins. Skóla- og frístundaráð hafi bókað fund með borgarstjóra á fimmtudag vegna málsins þar sem farið verði yfir hvernig samskiptum við foreldra og forráðamenn í skólanum verði háttað í framhaldinu. 

„Þetta er eitthvað sem við tökum mjög alvarlega og við viljum tryggja að samskiptin séu í lagi,“ segir Skúli. 

Spurður um það hvort borgin hafi verið ekki veitt svör í málinu segir hann að það þurfi að gera betur í þeim efnum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borginni lögðu fram bókun á fundinum í dag þar sem segir að það sé með ólíkindum að foreldrar hafi þurft að leita lögfræðiráðgjafar til að sækja sér nauðsynlegar og áríðandi upplýsingar varðandi málið. Lagt er til að skóla- og frístundasvið sjái til þess að unnið verði í fullu samstarfi við fulltrúa starfsfólks og foreldra Fossvogsskóla varðandi endurbætur við skólann og að allar upplýsingar um þá vinnu verði aðgengilegar. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata í skóla- og frístundaráði lögðu fram bókun um málið á fundi ráðsins í dag. Í henni segir að raka- og loftgæðavandamál, þar með talin mygla í húsnæði geti verið alvarlegt heilbrigðisvandamál og þrálátt en að skilningur læknisfræðinnar og heilbrigðissérfræðinga á myglu, hvernig hún dreifist og hvernig megi finna hana sé í stöðugri þróun.

Ekki sé langt síðan litið var á umræðu um myglu sem óstaðfestar fregnir, jafnvel bábilju, en að sem betur fer sé öldin önnur í dag og að Reykjavíkurborg hafi þegar farið í víðtækar aðgerðir til að uppræta rakaskemmdir og myglu þar sem slíkt finnist. „Það er ákaflega mikilvægt að gengið sé úr skugga um það að það húsnæði sem Reykjavíkurborg býður starfsfólki, íbúum og sérstaklega börnum upp á sé ekki skaðlegt heilsu þeirra. Varðandi Fossvogsskóla hefur verið gripið til mikilla endurbóta á húsnæðinu en hópur foreldra hefur kallað eftir athugunum með sýnatöku eftir lok framkvæmda til að hægt verði að ganga úr skugga um að komist hafi verið fyrir vandann,“ segir í bókuninni. Það séu eðlileg sjónarmið og taki fulltrúar meirihlutans undir að mikilvægt sé að tryggja góða upplýsingagjöf og samtal við foreldra og skólasamfélagið um næstu skref í málinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.