Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Foreldrar í Fossvogsskóla ósáttir við borgina

12.05.2020 - 11:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Foreldrafélag Fogssvogsskóla telur að borgaryfirvöld hafi ekki gert viðunandi prófanir til að ganga úr skugga um að engin mygla sé lengur í húsnæði skólans. Hafa foreldrarnir ráðið sér lögmann vegna svaraleysis borgarinnar í málinu.

Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla í fyrra vegna rakaskemmda. Sýnataka sem gerð var í apríl í fyrra leiddi í ljós að mjög varhugaverðir myglusveppir væru í byggingunni. Kostuðu framkvæmdirnar borgina hundruð milljóna. Myglan var það alvarleg að skólanum var lokað um tíma og öll starfsemin flutt í Kópavog á meðan endurbætur stóðu yfir. 

Skólinn var opnaður aftur í haust en Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að nokkrir nemendur finndu enn fyrir einkennum myglusvepps í húsnæðinu. Borgin segir aftur á móti að heilbrigðiseftirlitið hafi gert úttekt á húsnæðinu eftir endurbæturnar og ekki gert athugasemdir. Kennsla fari því fram í húsinu.

Í bréfi sem Karl Óskar Þráinsson, formaður Foreldrafélags Fossvogsskóla, sendi foreldrum barna við skólann í dag segir hann að félagið fari fram á að borgin stofni til samráðsvettvangs og kalli eftir þeirri sýnatöku sem þarf til þess að ganga úr skugga um að húsnæðið sé í lagi fyrir börnin.

„Því miður heykjast borgaryfirvöld enn á því að gera prófanir á húsnæðinu til að tryggja að komist hafi fyrir vandann, sams konar próf og leiddu umfangsmikinn vanda í ljós fyrir rúmu ári síðan,“ segir í bréfinu. 

Málefni Fossvogsskóla eru á fundardagskrá skóla- og frístundaráðs borgarinnar í dag.